miðvikudagur, 25. apríl 2007

Komin til Jaisalmer

Þvert á fögur fyrirheit okkar um að taka ekki framar rútur í Indlandi fór svo að við komum hingað til Jaisalmer með morgunrútu frá Jodhpur. Ástæðan var aðallega sú að það var auðveldara að bóka í rútuna og auk þess átti hún að vera loftkæld sem þýðir að maður er laus við ryk í augu og svitastrokið bak.

Eins og indversk lög gera ráð fyrir var rútan ekki loftkæld þegar á hólminn var komið. Við gátum hins vegar þakkað fyrir að hún lagði af stað á réttum tíma (hálf níu) og að fyrripart ferðar nutum við einhvers morgunsvala.

Rétt eins og þegar við keyrðum milli Agra og Jaipur tók ég eftir landslagsbreytingum. Nú varð landslagið ekki bara eyðurmerkurlegt heldur vorum við komin inn í eyðimörk, eða því sem næst. Aðeins harðgerð tré og stöku úlfaldi með vatnsbirgðir á bakinu hafast við á þessu svæði.

Við komuna til Jaisalmer sluppum við blessunarlega við allt áreitið frá strákum sem reyna að tosa mann inn á mislukkuleg hótel. Þar sem við höfðum bókað herbergi kvöldið áður vorum við sótt upp á rútustöð og keyrt beint á hótelið.

Eyðimerkurbærinn Jaisalmer hefur, ef eitthvað er, enn minna en Jodhpur upp á að bjóða fyrir ferðamenn ef frá eru talin kamelsafarí. Við erum einmitt komin í þeim erindagjörðum og lunginn úr deginum fór í samningaviðræður sem enduðu okkur í hag. Við leggjum af stað í fyrramálið í tveggja daga kamel- og jeppasafarí um Thar eyðimörkina.

Þetta er að sjálfsögðu afmælisgjöfin til Baldurs sem er svo sætur að eiga afmæli á morgun. Þar sem við verðum hins vegar hvergi nálægt siðmenningu þá verður ekki hægt að ná í okkur. Sendið okkur hins vegar góða strauma út í eyðimörkina og bíðið spennt eftir afmælisfærslu með mynd af afmælisbarninu sem kemur á síðuna á föstudaginn.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hér með fáið þið góða afmælisstrauma og gangi ykkur vel á kameldýrunum. Vonandi verður hitinn bærilegur, þess óska A+S.

Tinnsi sagði...

Til hamingju með afmælið Baldur, ég vona að þú hafir átt góðan afmælisdag í eyðimörkinni.

Nafnlaus sagði...

Mitt í mörkinni
miðaldra varð hann
Til hamingju með það
Hvað er 28 - 27 - 26
Gátuna ráða munt í
mörkinni

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með daginn í gær Baldur, hlakka til að heyra ferðasöguna um eyðimörkina..:)
Kveðja María

baldur sagði...

Þakka kærlega fyrir kveðjurnar. Afmælisdagurinn var góður en rosaheitur.

Ekki gengur mér þó nógu vel með gátuna góðu. Ef þetta er stærðfræði þá ætti svarið að vera -25 en ég er ekki alveg klár á merkingunni.

Nennir einhver að hjálpa mér með gátuna?