sunnudagur, 15. apríl 2007

Stutt ökuferð

Fyrr í dag, áður en við fórum í messuna, fórum við í stutta ökuferð.

Svo var mál með vexti að við ætluðum að taka smá sunnudagsrúnt um Fort Cochin til að skoða hollenska kirkjugarðinn og St. Francis kirkju. Þegar rickshaw bílstjóri bauð okkur skoðunarferð um svæðið fyrir 20 rúpíur ákváðum við að kýla á það, einkum og sér í lagi vegna þess að hann minntist á fílaskoðun, paper factory og ginger factory.

Fyrst keyrði hann með okkur í hollenska kirkjugarðinn en á leiðinni þangað sáum við einnig Vasco da Gama húsið og St. Francis kirkjuna sem við skoðuðum á ferð úr vagninum. Kirkjugarðinn urðum við síðan að skoða í gegnum rimla því hliðinu er alltaf lokað á laugardagskvöldum. Þeir vilja enga drukkna Indverja þangað um helgar.

Því næst keyrði bílstjórinn okkur upp að safni sem okkur þótti lítt áhugavert. Mun meiri áhuga vöktu piparkornin sem uxu á trénu fyrir utan. Kom þá ekki í ljós að blessuð piparkornin voru það sem bílstjórinn átti við þegar hann sagði paper factory. Pipartréð varð í hans meðförum að pepper factory, sem er ekki alskostar ósatt (tréð framleiðir jú pipar), en engu að síður villandi upplýsingar.

Ökuferðin fékk snöggan endi þegar bílstjórinn keyrði okkur í tvígang að verslunum og bað okkur að kíkja inn. Þegar við þráuðumst við fór hann að væla í okkur um að hann fengi fimm til tíu rúpíur ef við kíktum þó ekki væri nema í eina mínútu og að þá fengju börnin hans magafyllingu. Við vorum hins vegar komin með okkar fyllingu að kauða og gengum á braut.

Merkilegt nokk er þetta í fyrsta sinn sem við lendum í svona löguðu í Indlandi. Það má þó þakka fyrir það.

Engin ummæli: