Í Kerala fylki eru stór stöðuvötn sem í Indlandsferðabókinni ganga undir samheitinu the backwaters. Um þessi vötn er mjög vinsælt að sigla á ýmsum fararskjóta. Vinsælast meðal ferðalanga er án efa að leigja sér húsbát - svokallaðan kettu vallam - í sólarhring sem siglir með mann um vötnin og það eina sem maður þarf að gera er að slaka á og láta þjóna sér.
Í bænum Alappuzha er mikið framboð af slíkum húsbátum og það var einmitt ástæðan fyrir komu okkar þangað. Við komum hingað á páskadag og eyddum seinniparti hans í að finna húsbát á viðráðanlegu verði. Þegar það hafði tekist var samþykkt að leggja af stað í hádeginu daginn eftir og við gistum því eina nótt í bænum. Það voru mæðginin Benoy og Saudamini sem skutu skjólshúsi yfir okkur í þetta sinn. Bæði eru þau yndisleg út í gegn, hann lögreglumaður og sagnfræðingur og hún heimavinnandi húsmóðir sem sér um stöku ferðalang sem rekur á fjöru hennar.
Við vorum svo heppin að vera slíkir ferðalangar og fengum að launum besta matinn í Indlandi fram til þessa: sérkeralskan morgunverð sem samanstóð af hrísgrjónapönnukökum, eggjakarrý, tómatakarrý, chapatti brauði, ferskum mangó og chai-tei. Ekki skemmdu samtölin við þau mæðgin fyrir, þannig fengum við m.a. að sjá Biblíu á malayalam, tungumáli heimamanna, og komumst að því að nafn móðurinnar, Saudamini, þýðir þruma.
Eftir morgunmat héldum við út í húsbátinn en þó ekki fyrr en við vorum búin að tryggja okkur birgðir af blekpennum og karamellum. Á bátnum tóku þeir P. T. Raju og Devadas á móti okkur með breiðu brosi og suðrænum ávöxtum. Með góðri hjálp tókst að ýta bátnum út úr höfninni og við tók rólegt dól um vötnin þar sem dagskráin samanstóð af því að virða mannlífið við vatnsbakkann fyrir sér, þiggja veitingar og henda pennum og karmellum til barna á vatnsbakkanum sem kölluðu One pen, one pen! Náttúrufegurðin var mikil og fólst helst í grænum pálmatrjám við vatnsbakkann og græna afríkumosanum sem flýtur um öll vötnin.
Við sólsetur bundu þeir P. T. Raju og Devadas landfestar og Devadas fór með okkur í smá rölt um litla þorpið við vatnsbakkann. Þar á hann lítið hús og heilsuðum við upp á konu hans og dótturdóttur. Þau gáfu okkur kaffibolla, við gáfum þeim penna og karamellur, þar með vorum við kvitt.
Um kvöldið gerði mikið þrumuveður, svo mikið reyndar að ég hætti að hafa tölu á þeim eldingum sem ég sá slá niður. Það var ótvíræður hápunktur ferðarinnar að sitja út á þilfari báts sem liggur við landfestar og horfa á eldingarnar þjóta um himinhvolfið og sjá himininn lýsast upp svo ofsalega að á köflum varð hann sem um hábjartan dag. Þrumurnar ljáðu kvöldinu síðan aukinn töfrablæ og mér varð oft hugsað til þrumunnar sem við höfðum kvatt þá um morguninn eftir morgunverðinn dásamlega. Stóð hún kannski á bak við þessa einstöku reynslu?
Við borðuðum kvöldmat út á þilfari í þægilegum baststólum og lásum okkur til heilsubótar. Titill bókarinnar sem ég vera að lesa endurspeglaði vel upplifunina það kvöldið, Blue Shoes and Happiness. Í mínu tilfelli voru það reyndar grænir sokkar og hamingja en það sleppur alveg.
Morguninn eftir vorum við mætt rétt upp úr sex út á þilfar til að fylgjast með sólinni hífa sig upp yfir pálmatrén og feta sig hægt og sígandi upp himinstigann. Eftir morgunmat dólaði báturinn eftir vatninu og við fylgdumst með fólki við morgunstörfin sem flest ef ekki öll fara fram við vatnsbakkann: baða sig í vatninu, bursta tennurnar, sækja vatn og þvo þvott.
Við vorum komin í land rétt fyrir ellefu og kvöddum þá félaga P.T. Raju og Devadas með þökk fyrir frábæra þjónustu. Enskukunnátta þeirra hafði ekki komið að miklum notum í ferðinni en manngæska þeirra skein í gegn og gerði ferðina ógleymanlega.
Myndir af vatnaútilegunni eru komnar á netið, sjá hér.
2 ummæli:
Takk æðislega fyrir að senda mér linkana á síðurnar ykkar, ég er búin að skoða þetta allt og lesa og ekkert smá spennandi ferðalög á ykkur. En leitt samt að þú/þið komist ekki á reunionið, en svona er þetta maður getur ekki gert allt. Njótið vel það sem eftir er af ferðinni.
kv. Ólöf Ósk, gamall skólafélagi ;)
Takk fyrir kveðjuna, alltaf gaman að fá komment. Höldum bara annað reunion seinna, kannski í Kína?
Skrifa ummæli