miðvikudagur, 6. júní 2007

Flóð á götum og blautar tær

Við fórum að skoða Kathmandu í dag í samfloti við vin okkar Jonathan og unga Chilibúann Ben. Þar sem borgin er lítil og umferðin ekki mjög truflandi er auðvelt að ganga um og skoða og milt loftslagið hjálpar einnig.

Við gengum um helsta ferðamannahverfið sem heitir Thamel og skoðuðum útivistarvarninginn sem er í boði. Við gengum um Freak Street sem ekki ber nafn með rentu en kallast þetta því hipparnir kusu að setjast þarna að á sínum tíma. Við gengum fram hjá mörgum búdda- og hindúahofum, festumst í lítilvægum umferðarhnútum með litríkum og skreyttum hjólaléttivögnum, keyptum jarðarberjamentos og lentum loks í grenjandi rigningu.

Við leituðum skjóls í verslunarmiðstöð en meira að segja þar rigndi í gegnum þakið. Við fylgdumst með vatninu byrja að mynda litla læki á götunum, síðan steig það hærra og hærra því það hélt stöðugt áfram að rigna. Að lokum urðum við að hverfa frá verslunarmiðstöðinni og halda út á flæðandi göturnar, ekkert okkar með regnhlíf og við Baldur í opnum sandölum.

Upp að byggingum liggja yfirleitt tvær brattar og mjóar tröppur og á þeim ganga heimamenn til að forðast flóðið á götunni. Við hermdum að sjálfsögðu þessa hegðun eftir þeim og náðum þannig að forðast að vaða yfir verstu sundin. Vandamálið er hins vegar að umferð gangandi vegfarenda er í báðar áttir og að mætast á þessum mjóu þrepum er hægara sagt en gert. Til að liðka fyrir þarf maður að skáskjóta sér, beygja sig í hnjánum, sveigja sig í S og draga sig saman í atóm.

Við enduðum á því að leita skjóls á kóreskum stað, blaut og hrakin. Ég var með sand milli tánna og Guð veit hvað annað og peysan mín var svo skítug eftir tröppugönguna að það mætti halda að ég hefði hlaupið til og þvegið hana upp úr götuflóðinu.

Það mætti ljúga því að mér að monsoon væri hafið.

Engin ummæli: