laugardagur, 18. ágúst 2007

Brottför í aðsigi

Við náðum í kafararéttindin okkar í dag og höfum nú leyfi til að kafa niður á 18 metra dýpi. Til lykke! Reyndar er um bráðabirgðaskírteini að ræða þar sem senda þarf öll gögn til PADI í Ástralíu og þaðan verða síðan hin eiginlegu skírteini send heim á frostafrón.

Við lærðum svo ótrúlega margt á þessum þremur dögum í köfunarskólanum að mér finnst eins og hausinn nái með engu móti að rýma það allt. Við lærðum um bör og þrýsting og þéttleika efnis, kafaraveiki og nítrógen í blóði, mikilvægi þess að taka öryggisstopp eftir kafanir niður á 30 metra dýpi, um skepnur hafsins og hegðun þeirra... ég gæti haldið áfram endalaust.

Erfiðast reyndist mér að læra að fljóta í vatninu á réttu dýpi. Ýmist drógst ég eftir hafsbotninum eins og krabbi eða skaust upp á yfirborðið eins og korktappi. Það er ekki sérlega æskilegt í köfun að skipta hratt um dýpi út af þrýstingsbreytingunum og því er köfurum svo mikilvægt að ná fullkominni færni í að halda réttu dýpi. Á síðasta degi var ég komin upp á lagið með að nota lungun eins og blöðrur og þannig stjórna því hvenær ég færðist upp og niður í vatninu. Það er ekki á hverjum degi sem maður notar lungun í þeim tilgangi en ég get sagt ykkur að það er ansi flippað.

Skemmtilegast fannst mér síðan að læra að nota áttavita í vatninu. 0° er segulnorður og 180° er suður. Ég hélt að það yrði svo erfitt að læra á svona apparat en þegar til kastanna kom reyndist það hin auðveldasta þraut. Svo er líka svo mikið sport að kafa með áttavita á úlnliðnum.

Við kveðjum Koh Tao í kvöld með miklum trega. Það er búið að vera hreint yndislegt að vera innan um öll pálmatrén og rólegheitin, þó ég geti ekki sagst koma til með að sakna mauranna (þeir komust í harðfiskinn!). Í kvöld tökum við næturbát yfir til meginlandsins sem verður fróðlegt að prófa (næ ég að sofna, næ ég ekki að sofna?). Á döfinni er svo að kíkja til Malasíu, hversu übersvalt er það ekki?

Engin ummæli: