mánudagur, 20. ágúst 2007

Malasía!

Þá erum við komin til Georgetown í Malasíu eftir gott ferðalag. Það kom í ljós að næturbáturinn var alveg ágætur og hefði hæglega getað ruggað mér í svefn hefði ég náð að sofna. Ég svaf hins vegar lítið þessa nótt enda rúmið bara örmjó dýna á gólfinu, kramin upp við aðra dýnu.

Mér tókst reyndar að bæta aðeins upp svefnleysið með því að sofa í lestinni sem við tókum frá Surat Thani til tælenska landamærabæjarins Hat Yai. Ég fékk þó ekki að sofna fyrr en eftir morgunmatinn sem lestarfreyjan bar fram en hann samanstóð af bláberjamuffu, smjördeigsbrauði og dísætum appelsínusafa.

Í Hat Yai lögðumst við í útreikninga og samanburð og komumst að því að best væri að taka leigubíl yfir landamærin, já bara alla leið til Georgetown. Svo við gerðum það, fengum malasískan leigubílstjóra sem keyrði um á brúnsanseruðum Mitsubishi Lancer frá 9. áratugnum.

Allt gekk snuðrulaust fyrir sig á landamærunum ef frá er talinn tælenski landamæravörðurinn sem tuðaði heil ósköp yfir því að þurfa að pikka löngu og óþjálu nöfnin okkar inn í tölvuna. Frá landamærunum brunuðum við í nokkra klukkutíma eftir afskaplega rennilegri hraðbraut og vorum komin inn á hótel í Georgetown upp úr kvöldmat.

Það er enn of snemmt að segja nokkuð um Malasíu annað en að 1. það er rosalega skemmtilegt að vera komin hingað, 2. ritmálið er okkur auðveldara (rómanskt) en það tælenska og 3. gjaldmiðillinn heiti ringgit. Baldur á það til að kalla hann ringding, en ekki hvað.

Engin ummæli: