sunnudagur, 12. ágúst 2007

Litríkir dagar

Frá Bangkok til Koh Tao. Tveir gerólíkir heimar. Hér á Skjaldbökueyju er allt svo litríkt að undrum sætir. Fólkið og fötin sem þau klæðast eru mjög litrík, ekkert er tilsparað, nema grátt, það sést aldrei hér. Fiðrildin, fiskarnir, blómin, húsin, maturinn allt virkar þetta svo vel saman. Litirnir í sjónum eru allt frá gulu upp í svarblátt. Ótrúleg paradís þessi eyja.

Þó er alltaf einhver hængur á, allavegana í byrjun. Áhyggjulausir Asíudagar eru líklega sjaldan án vandkvæða fyrir byrjanda í skordýraflórunni hér. Það kemur jú aldrei fram á öllum litríku myndun hér að allstaðar eru litlir vágestir í felum, og sjást því ekki á myndunum. Hér á ég við skordýr og flugur af öllum mögulegum gerðum. Allra verstar eru þó moskítóflugurnar, þær setja sig aldrei úr færi um að gera manni lífið leitt. Þar sem Baldur er með í ferðinni er beitt sérfræðiaðgerðum gegn þessum kvikindum. Við höfum vopnast gegn vágestinum, og nú skal öllum brögðum beitt.

Við erum með allskonar aðgerðir í gangi gegn hvers kyns flugum, svo sem sérstök reykelsi sem við brennum á svölunum fyrir utan bungalóana, raftæki inni í húsunum sem stungið er í innstungu og sérstakur vökvi gufar upp úr á nóttinni og drepur flugur. Allar gerðir af mugguspreyi eru notaðar. Netin á gluggunum þurfa að vera í lagi og við spreyjum þau líka. Semsagt Íslendingar á ferð í útlöndum. Eftir bitin mín í Bangkok fékk ég ný bit hér sem eru öðruvísi og ég var svo heppin að hitta hjúkkuna hennar Ásdísar og hún seldi mér galdrasmyrsl við bitunum. Nú eru öll sár að hverfa og þá verður paradísin aftur gallalaus.

Ég verð að segja að eitt hefur komið mér mjög á óvart, en það er heilsugæslan í landinu. Allsstaðar eru litlar viðurkenndar klínikar, litlar læknastofur sem fólk notast mjög mikið. Verðið fyrir þjónustuna er síðan alveg hlægilegt. Þannig kostar oftast 200 kr. að láta skipta á sárinu hjá Ásdísi og binda um aftur. Þetta átti einnig við í Bangkok, sama verð þó bæði læknir og hjúkrunarkona væru að stjana við hana. Þannig þarf enginn að hræðast það að ferðast hingað vegna heilsufarslegra hluta. Allt er lagað hér með brosi á vör og það strax.

Elfar Ólason, Koh Tao

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Jæja, eins og Snjólaug orðaði það þá bloggar pabbi "eins og vindurinn"... hehe. Vel skrifað þetta komment um að ekkert sé tilsparað nema grátt.
Annars set ég spurningarmerki við heilbrigðisþjónustuna, hversu langt nær hún? Umbúðaskipti eru svona basic. Ef fólk þarf t.d. á bráðri augnaðgerð eða hjartaþræðingu að halda, er þessi aðstaða til staðar?
Annars er allt með kyrrum kjörum í víkinni, fyrir utan mikla ókyrrð á fjármálamörkuðum. Tók dýfu en hækkaði nú yfir helgina.