þriðjudagur, 28. ágúst 2007

Singapore!

Singa þýðir ljón og pore þýðir borg, ergo Ljónaborg. Eyjan ku vera á stærð við Borgundarhólm (skv. Turen går til Singapore) en þó nokkru fleiri búa þar, u.þ.b. 4,3 milljónir, og svo er Borgundarhólmur víst nokkrum kílómetrum lengra frá miðbaug.

Fyrir þessa heimsókn hafði ég heyrt alls kyns umsagnir um Singapore m.a. að hún væri:
- Hreinasta borg í heimi
- Steríl
- Ein stór kringla
- Menningarkokteill

Þetta fékkst nú allt saman staðfest nema ég veit ekki hvort Singapore sé endilega hreinust í heimi en hrein er hún. Varðandi hin atriðin þá er það rétt að hún er afar steríl á köflum en ekki veit ég með kringlu-elementið þar sem fókusinn hefur ekki verið sérlega kringlumiðaður til þessa.

Ekki verður hjá því komist að kalla staðinn menningarkokteil því á þessu litla svæði er töluð enska, Mandarín kínverska, malasíska og tamílska. Þetta er að sjálfsögðu tilkomið af því að íbúar staðarins eru af ýmsu bergi brotnir en afkomendur kínverskra innflytjenda eru þó í miklum meirihluta eða tæplega 77%.

Allir eiga sitt hverfi og það gera þjóðarbrotin líka. Við erum búin að heimsækja bæði Kínahverfið og Litla Indland. Hverfin eru mikið til verslanir þó svo að Kínahverfið hafi verið mun líflegra þar sem Indverjarnir höfðu lokað öllum básum og flestum búðum vegna hellidembu.

Aldrei hef ég á ævinni komið til Kína svo ég ber Kínahverfið bara við önnur Kínahverfi og má segja að það sé tiltölulega týpískt og eru menn í óða önn að friða hinn hungraða draug en nú er mánuðurinn hans. Ekki get ég þó sagt að Litla Indland minni mikið á móður sína, alltof mikil röð og regla, prúðmennska og engin læti. Það var einhvern veginn ekki nægilega lifandi til að bera Indlandstitilinn með fullri reisn. Það kann að hljóma undarlega fyrir þá sem ekki þekkja til en mér líkar mun betur við Indland í allri sinni dýrð, með kostum og göllum.

Einnig kíktum við á svæði sem kallað er Boat Quay eða Kajann og gengum þaðan að Merlion, merki borgarinnar sem er bráðhuggulegt sæljón (eins og ég kalla það), risastór stytta af fiski með ljónshaus sem horfir til hafs og frussar út í sjóinn. Lonely Planet lýsir styttunni sem: Downright weird. Það var einmitt það element sem ég fílaði best.

Kajinn er skemmtilegur og gaman að vera á þessum slóðum þegar myrkrið skellur á og sjá klassískar nýlendubyggingar fljóðlýstar og nútímaarkítektúr verða að einhverju allt öðru en dagsbirtan sýndi. Rétt hjá Kajanum, nánar tiltekið á Clarks kaja, fundum við æðislega fínan, ég meina Fínan, persneskan veitingastað og nutum þar matar og drykkjar.

Annað sem við komumst að er að samgöngumál borgarinnar eru sérdeilis góð. Það er háþróað neðanjarðarlestakerfi sem kallað er MRT og fyrir vikið sér maður ekki mikið af umferðarteppum enda allir í lestunum. Það sem ég á við með háþróað er að lestirnar ganga títt, eru ódýrar, snyrtilegar og kerfið spannar mikið svæði.

Þegar maður nennir ekki að taka lest er kjörið að taka leigara. Fargjöldin eru fáránlega lág miðað við annað hér um slóðir og leigubílstjórarnir oft svo skemmtilegir að ég hélt stundum að þetta væru uppistandarar á milli starfa. Einn sagði okkur t.d. að MBA þýddi annaðhvort Married By Accident eða Married But Available. Að því loknu spurði hann út í ferðalög okkar og lék bæði Indverja, með tilheyrandi höfuðvaggi, og Tælendinga, með öllum tilheyrandi handahreyfingum. Alveg hrikalega gaman í leigubílum Singapore.

Í Singapúr höfum við hitt mikið af hlýlegu og sérstaklega vinalegu fólki. Eitt gott dæmi er indversk kona sem rekur sjoppu og netkaffi við hliðina á hótelinu okkar. Það var hellirigning og til að komast á milli húsa keyptum við regnhlíf. Ásdís og Elfar fóru á undan mér (sem var fastur á netinu) og var planið að hittast á heilsustað hundrað metra frá hótelinu. Ég skelli mér í regnstakk og geri mig líklegan til atlögu við úrhellið en sú indverska tók það nú ekki í mál og heimtaði að lána mér regnhlífina sína! Heldur betur almennilegt lið þessir Singapúrar.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mikið var að eitthvað sá dagsinn ljós.
Ég var farinn að örvænta að ekki kæmi meir. því síðustu fréttir af ykku fékk ég síðasta sunnudag og að þið væru þá í góða landinu Tæ og á leið norður vonandi verður gott netsamband á næstu dögumm!!
ykkar
Stjáni

baldur sagði...

Örvæntu ekki! Tæknin hefur aðeins verið að stríða okkur undanfarnar vikur.

Þannig er mál með vexti að þrátt fyrir ítrekaðar viðgerðartilraunir í Bangkok á ferðavélinni stendur allt á varahlut sem hvergi fæst og borgar sig ekki að panta.

Við lofum þó að sjálfsögðu okkar allra besta og þökkum þér, elsku Kristján, og öðrum lesendum þolinmæðina.