fimmtudagur, 20. september 2007

Furðulegar draumfarir

Jeminn eini, ég veit ekki hvað gengur að mér. Mig dreymdi ferlega steiktan draum í nótt (lýsingarorðið steikt fær alveg nýja merkingu þegar tekið er tillit til viðfangsefnis og samhengis). Ég veit ekki hvort ég ætti að hætta mér út í lýsingar, verð ég þá ekki óskaplega berskjölduð gagnvart árulesurum, sjáendum og draumaráðningarfólki? Æ, það vilja mér allir hvort sem er bara vel, ég læt það flakka.

Sko, ég og mamma vorum að ferðast tvær í Tælandi og vorum búnar að taka á leigu lítinn kofa sem stóð á stultum út í vatni. Ég man mjög vel eftir að hugsa: mikið er ég fegin að fá að ferðast svona um með mömmu, fékk að ferðast með pabba og núna mömmu.

Mamma var voða ánægð inni í kofa alltaf hreint en ég var meira fyrir að fara úr á verönd og stökkva þaðan út í til að kafa, með kafaragræjur. Í einni köfuninni er ég ýmist í vatninu eða einhversstaðar annarsstaðar en það merkilega er að ég verð vitni að fæðingu kanínu.

Þetta er þó engin venjuleg fæðing því kanína er að fæðast úr engu inn í glærum plastpoka! Þegar hún kemur í heiminn er tvennt sem vekur athygli mína: 1. það er stór laukbiti aftan á hálsinum á kanínunni, eins og maður setur á grillteina og 2. hún er í himnu sambærileg þeirri sem kettlingar fæðast í.

Nema hvað hennar himna er þessi plastpoki sem hún fæddist í og hún þarf að naga sig í gegn því engin er mamman til að hjálpa henni. Mig tekur sárt að horfa upp á kraflausa viðleitni hennar en læt hana þó vera fyrst um sinn, minnug þess að dýrin í náttúrunni þurfa oft að berjast á fyrstu augnablikum lífsins. Þegar ekkert virðist ætla að ganga fer ég að verða óróleg því ekki nær kanínan andanum í pokanum. Ég tek því fram skæri sem ég er með í kafi og klippi smá loftgat á pokann.

Seinni senan á sér einnig stað í kafi og snýr að plástri. Ég sé plástur fljótandi í vatninu en á hann vantar fjóra anga sem gerir það að verkum að plásturinn getur ekki synt! Ég vorkenni honum ógurlega og fer upp úr kafi til að ná í nál og tvinna, ætlunin er að sauma þessa fjóra anga á hann svo hann getir synt um glaður og frjáls. Ég næ þó aldrei að gera það.

Verður draumurinn um kanínuna og laukinn skrýtnari ef ég upplýsi að mig dreymdi hann nóttina fyrir fyrsta daginn á matreiðslunámskeiði?

2 ummæli:

Unknown sagði...

Þetta er stórskrýtinn draumur svo ekki sé nú meira sagt. Vildi að ég hefði vit á draumum, þykir forvitnilegt að vita hvað þetta táknar.

Unknown sagði...

Sammála Stellu.
Hitt er víst að nú koma mörg dýr í heiminn nánast beint í kæli stórverslana, firrt þeirri móðurmjólk og -umhyggju sem náttúran ætlaði þeim. Fljúgandi plástrar eru kannski það sem koma skal... ekki hafa fljúgandi diskar megnað að bjarga miklu fyrir horn svo vitað sé að minnsta kosti.
Annars er kanínan merk skepna og hlaðin tákngildum. Frægust er draumakanína Lísu í Undralandi, holdgervingur nútímamannsins á hlaupum eftir tímanum.
Hlakka til að fá fréttir af ráðningum.