þriðjudagur, 23. október 2007

Gufubað à la Laos

Seinnipart dagsins í dag áttum við stefnumót við sænsk-kólumbíska vinaparið okkar, Fernando og Sofiu. Fundarstaður var gufubað á lóð stórs klausturs hér í bæ en gufuböð eru víst mjög vinsæl meðal heimafólks.

Þegar okkur bar að garði var hverju okkar fenginn litríkur sarong, stór bómullarstrangi á stærð við lak, til að vefja utanum okkur í þágu almenns siðgæðis. Gufubaðið var einföld smíð, járntunna fyllt af vatni og kryddjurtum (engifer meðal annara) sett yfir hlóðir og úr tunnunni var gufan leidd í stokk inn í viðarskúr á stultum.

Einfalt var augljóslega gott því í gufunni sátum við og svitnuðum drjúga stund og vitanlega ræddum við flókna og háfleyga heimspeki sem ekki er pláss fyrir á hvunndagsvefsíðu sem þessari. Hvers vegna að leggjast undir feld þegar hægt er að hlamma sér á rökstóla í jurtagufu?

Eftir fyrstu salíbunu var okkur boðið upp á nudd en afþökkuðum það pent, virtist vera algert káf, og fengum okkur tebolla meðan við kældum okkur fyrir næsta sett. Sem við dreyptum á teinu veittum við því athygli að hópur munka sat fyrir neðan og mændi á það sem við þeim blasti: Sveitt norræn kvenmannsbök. Fleiri kunnu að meta viktoríanska nektarsjóvið, auðvitað moskítóflugurnar :)

1 ummæli:

Unknown sagði...

En huggulegt að fara í gufubað!