laugardagur, 13. október 2007

Nýja gistiheimilið

Við urðum að skipta um gistiheimili í dag. Í gærkvöldi, þegar við vorum að tygja okkur í háttinn, byrjaði allt í einu vatn að spretta út á milli flísafúgunnar inn á baðherbergi, rautt af ryði. Fljótlega var farið að fljóta út af baðherberginu og inn á herbergi.

Við létum húsráðendur vita, róleg Lao stórfjölskylda sem telur ömmu og afa, ung hjónakorn og stelpuna þeirra. Þau tóku á það ráð að skrúfa fyrir aðalinntakið og byrjuðu að þurrka allt upp með handklæðum. Á meðan hentum við öllu okkar hafurtaski í töskur og fluttum í herbergið á hæðinni fyrir neðan. Það er kannski ekki alveg það sem maður hefur í huga rétt fyrir miðnætti þegar maður er hálfháttaður, hálfur í sturtunni og hálfpartinn farinn að lúlla.

Herbergið sem við fengum var tölvuvert minna og umtalsvert verri kaup. Ég svaf til dæmis lítið sem ekkert um nóttina því gormarnir í dínunni voru ónýtir og ég var þar með alveg ónýt í bakinu. Okkur fannst því ekki annað hægt en að tékka okkur út í morgun og fara á gistiheimili þar sem væri í það minnsta hægt að fara í sturtu.

Við kvöddum því Lao stórfjölskylduna sem fannst afskaplega leitt að við værum á förum. Þau vildu fá að vita á hvaða gistiheimili við færum, hvað það kostaði mikið og hve lengi við ætlum að vera í viðbót. Okkur fannst við vera að stórsvíkja þau með því að færa okkur úr stað.

Engin ummæli: