föstudagur, 26. október 2007

Í sveitasælunni

Í gær vorum við í látunum og borgarlífinu í Vientiane og núna erum við komin í sveitasæluna á Boliven hásléttunni. Talandi um æpandi andstæður!

Við tókum VIP næturvagn frá Vientiane til Pakse fyrir sunnan. Að þessu sinni var næturrútan með rúmum og sængum og öllu. Mér leið eins og ungbarni sem sett hefur verið út í vagn: mér var heitt undir sænginni en ég var með ískaldar kinnar og nebba út af loftkælingunni.

Til Pakse komum við eldsnemma í morgun og urðum að skipta yfir á aðra rútustöð til að ná rútunni þangað sem við ætluðum okkur, þ.e. að litlu þorpi sem stendur við Tat Lo fossana á Boliven hásléttunni. Við hossuðumst eftir veginum, ein fárra ferðamanna, og fylgdumst með stultuhúsum og litlum þorpum með hlaupandi hænsnum og grísum líða hjá.

Reyndar leið þetta ekki alveg svona áreynslulaust fyrir sig því þegar við vorum búin að koma okkur vel fyrir í vagninum, óvenjuhress svona eldsnemma í morgunsárið, og voru mitt í því að teygja okkur í hnetur og japla á skrældu epli, æddu heimamenn allir sem einn út úr vagninum og við tvö, einu túristarnir um borð, sátum eftir með spurningarmerki á andlitinu. Það kom í ljós að búið var að hlaða nýjum vespum á þakið á öðrum vagni og þessum vespum skildi komið á áfangastað. Svo við skiptum um vagn og yfir í miklu verri vagn, takk fyrir.

Þegar við komum til Tat Lo fundum við gistingu í bastkofa á stultum. Hann er allur út í basti og kóngulóarvef og við deilum baðherbergi með öðrum kofum. Um lóðina vappa hænsnin og ein önd nartar í grasið undir kofanum okkar, tíkin á svæðinu á fimm hvolpa sem varla eru farnir að opna augun og nágranninn á beljur og nokkur svín.

Bærinn var hljóðlátur fyrir þegar við löbbuðum í gegn og skoðuðum en eftir að tók að skyggja datt öll umferð niður, umferð sem samanstóð af hjólandi og hlæjandi börnum. Hér dimmir mjög hratt og allt er með kyrrum kjörum en samt er svo mikið að hljóðum í náttúrunni.

Engin ummæli: