föstudagur, 4. maí 2012

Brumhnappar kveðja












Ég hef verið í óvenjusterku sambandið við vorið í ár. Ég veit fyrir víst að því ber að þakka göngutúrum sem ég fer um eyjuna daglega. Ég nota tækifærið í þessum gönguferðum til að heilsa upp á brumið og skoða vöxt og framgang vorsins. Það er mitt mat að vorið hafi verið óvenjulangt og kalt. Ég er búin að bíða síðan síðla mars eftir því að laufin springi út og núna rúmum mánuði síðar virðist loksins eitthvað vera að gerast í þeim málum. Ekki það að ég á eftir að sakna þess að sjá loðna brumhnappana, þeir líta út eins og bústnir smáfuglar og svo er svo mjúkt að strjúka þá.

Síðustu vikur hef ég verið að fara í þessa göngutúra með Charles Dickens og hann hefur verið að segja mér skemmtilega sögu af frönsku byltingunni, London og París, ást og fórnum. Svo er í bígerð að fara í labbitúr með nýju vinkonu minni Lönu Del Ray sem ætlar að segja mér sögur af bláum gallabuxum og sumardepurð.

Um daginn fórum við myndavélin saman í göngutúr og þegar ég sá eitthvað skemmtileg til að mynda bað ég Dickens um að stöðva orðaflauminn í eitt augnablik rétt á meðan ég mundaði vélina. Þegar ég hitti Lolitu, sem er pen og loðin læða sem býr upp á hæðinni í einu af fínu húsum eyjunnar, varð Dickens að vera mjög þolinmóður því mér finnst svo gaman að spjalla við hana.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gaman að sjá þessar fallegu myndir og frétta af því góða föruneyti sem þú hefur í gönguferðum þínum um eyjuna ykkar. Kær kveðja.
Pétur afi

ásdís maría sagði...

Takk fyrir kveðjuna, það er alltaf gaman þegar fólk kvittar fyrir sig.

Bestu kveðjur á móti,

Ásdís