fimmtudagur, 3. maí 2012

Frönsk súkkulaði- og sumarterta

Maí hefur verið forvitnilegur framanaf. Í gær og í dag, á öðrum og þriðja degi mánaðarins, snjóaði og haglél barði rúðurnar að utan. Mig er virkilega farið að lengja eftir sumri og sól og svo virðist vera sem eina leiðin til að leyfa sér smá af þeirri dýrð sé að skoða myndir frá síðasta sumri og láta sig dreyma um betri tíð. Bráðum skal koma betri tíð!

Síðasta sumar þegar við vorum í heimsókn hjá tengdaforeldrunum mínum í Frakklandi og með litlu frænkurnar í láni, bakaði ég yndislega súkkulaðitertu. Ég fann uppskriftina utan á Grand Fermage smjörpakka og skellti í eina á góðum sólardegi þegar við tjölduðum öllu til, fíruðum upp í ofninum og bökuðum flatbökur, paté, brauð og kökur. Einn draumadagur í minningabankann.

Sjáið bara hve einfalt þetta er:
200 g saltað smjör
200 g dökkt súkkulaði
300 g sykur
100 g hveiti
6 egg

Bræðið saman súkkulaði og smjör yfir vatnsbaði. Bætið sykri og hveiti saman við í smáum skömmtum og hrærið varlega saman við deigið með sleif. Deigið á að hafa mjúka áferð. Bætið við eggjunum einu í einu. Smyrjið 24-26 cm form með smjöri og hellið deiginu út í. Bakið við 180°C í 30 mín.

Engin ummæli: