þriðjudagur, 26. júní 2012

Sveitasælan í máli og myndum

Plómuuppskeran

Verkamaður í appelsínugulu

Snatmundur

Brauð úr ofninum

Litríkt og sumarlegt

Untitled

Asnar

Brómber!

Í rólunni

Eldhringir

Untitled

Hopp

Ég var að enda við að setja inn myndir frá dvöl okkar í Frakklandi síðasta sumar. Betra seint en aldrei!

Foreldrar Baldurs búa í sveitasælu rétt utan við litla þorpið Montreuil-sur-Ille, á gömlu sveitabýli umlykið stórum og gróðursælum garði. Í þessum garði vaxa epli og perur, plómur og ferskjur, vínber, kúrbítur, tómatar og fleira góðgæti. Heimasætan heitir Snati, íslenskur fjárhundur sem lætur franska og ókunnuga fánu ekki stöðva sig, hvort sem hún er í formi broddgalta eða snáka. Í þessari sveitasælu vörðum við þremur góðum vikum síðasta sumar og reyndist sveitasælan vera hinar kjörnustu aðstæður til að aðlagast vestrænni menningu eftir langa dvöl í Austurlöndum fjær. Svo var ekki verra að tvær litlar frænkur voru í heimsókn hjá ömmu og afa á sama tíma og við.

Utan við Lande Basse sveitabýlið eru akrar og skóglendi, litlir bugðir sveitavegir, kanalar byggðir af Napóleon og þorpið sjálft sem hefur að geyma kjörbúðir, boulangeries og hársnyrtistofu. Við nýttum okkur þjónustu allra þessara aðila í heimsókn okkar og gott betur en það því við heimsóttum líka stærsta kjarnann á svæðinu, Rennes þar sem við versluðum í H&M og borðuðum galettes og crepes á útikaffihúsi í miðbænum. Við fórum líka í dýragarðinn, á ströndina, borðuðum mat grillaðan á báli og fengum notið eldsýningar. Fyrst og síðast þá borðuðum við góðan mat og höfðum það gott í sveitinni.

Hér að ofan er að finna nokkur góð sýnishorn en albúmið í heild sinni er að finna á flickr síðunni okkar, í albúminu Bretanía 2011.

2 ummæli:

Ólöf sagði...

En skemmtilegt! Takk!

Augabragð sagði...

Draumur í dós :)