Ég fór í jógatíma til vinkonu minnar Viri í fyrradag. Hún lauk nýverið við jógakennaranám hjá Julie Martin eins og við Baldur, og lærði vinyasa flæði á meðan við lærðum Ashtanga fræði. Ég var forvitin að koma í tíma og sjá hvernig hún ber sig að við kennsluna, en svo var mig líka alveg farið að lengja eftir teygjum, átökum og slökun.
Ég kom út úr tímanum endurnærð og hamingjusöm. Spurning hvort maður fari bara að kenna jóga fyrst maður hefur nú til þess nám og réttindi? Allavega fannst mér það ferlega gaman í Goa í fyrra, jústera fólk, gefa því hálsnudd og almennt hjálpa jógum við að gera jógaástundun þeirra enn betri.
En yfir að öðru alls ótengdu. Við fórum í bíó á þriðjudaginn var og sáum þá myndina hans Woody Allans, To Rome With Love. Hún var þrælskemmtileg og fékk mig mikið til að langa að heimsækja Róm aftur. Dagsferð í Róm er nefnilega ekki neitt, vika væri nær lagi. Láta sig langa eða slá til?
Í gær fórum við í fertugsafmæli hjá Ingibjörgu vinkonu okkar og jógakennara. Fyrr um daginn fórum við í Elliðaárdalinn, aðalstaðinn þessa dagana, og á meðan ég kraftgekk/skokkaði langan hring tók Baldur á því í tækjum og grindum sem þarna er að finna. Það rigndi á okkur á köflum en annars var veður milt og stillt.
Þessa dagana er Elliðaárdalurinn iðandi í bleikum og rauðum stilkum, sem sveigjast svo fallega til í vindinum. Við höfðum meðferðist garðklippurnar hans pabba og gátum klippt í vænan vönd handa afmælisbarni dagsins. Hentum okkur svo í sund, svo í Epal að kaupa gjöf, svo í Kringluna að pakka inn, svo í Garðabæinn að gera okkur fín og svo aftur niður í bæ í veisluhöld. Hittum þar fullt af frábærum jógum og svo var la familia Rodriguez þarna eins og hún leggur sig en þau gera góða stund alltaf betri.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli