sunnudagur, 2. september 2012

Kasjú-karrý-kókos súpa

Kasjú-karrý-kókos súpa

Í gær var haldið hátíðlega upp á el día de la sopa de Baldur. Við hittum Rodriguez fjölskylduna heima hjá Viri og komum klifjuð með rauðlinsur, rauðlauk, sæta kartöflu, kasjúhnetur og fleira góðgæti.

Skelltum okkur beint í matseldina með tilheyrandi saxi á lauk, Rodriguez fjölskyldunni til mikils hryllings. Komumst sem sagt að því þarna á staðnum að þau fíla ekki lauk. Eða það rifjaðist réttara sagt upp fyrir okkur er við stóðum þarna í eldhúsinu og munduðum hnífinn. Við urðum að útskýra fyrir þeim að indverskur matur væri samsettur úr lauk og aftur lauk og hvítlauk meira að segja líka. Þau voru byrjuð að gráta á þessum tímapunkti og ég er ekki að ýkja, svo óvön eru þau lauk. En þau sættu sig við lauk í súpunni þegar við sögðum að svona hefði súpan verið seinast þegar við elduðum hana, þetta væri elemental í supa de Baldur.

Svo borðuðum við öll súpuna með bestu lyst enda góð og matarmikil. Fengum nýbakað brauð með og gojiberja safa. Svo hafði ég bakað franska súkkulaðitertu sem ég bar fram með jarðarberjum og bláberjum, það var ógesslega gott.

Hér kemur svo uppskriftin að supa de Baldur. Ég hef minnkað hana en hún ætti hæglega að duga 4-6 manns, eftir því hversu þykka maður vill hafa hana.

HVAÐ:
2 rauðlaukar, saxaðir
4 hvítlauksgeirar, pressaðir
3 sm bútur af engifer, rifið
1/2 stór sæt kartafla, skorin í teninga
4 gulrætur, niðursneiddar
3-4 msk af mildu curry paste
1-2 msk af sterku Madras karrýi (frá Raja)
1 bolli rauðar linsur
1/2 bolli kasjúhnetur, hakkaðar
1 dós kókosmjólk
3-6 msk tómatpurée (smekksatriði með magn)
700-1000 ml vatn (smekksatriði hve þykka súpu maður vill fá)
grænmetiskraftur til að bragðbæta
salt og pipar
ferskur kóríander
(töfrasproti)

HVERNIG:
Steikja rauðlaukinn í góðum potti upp úr olíu að eigin vali. Kókosolía kemur sterk inn þar sem hún rímar vel við kókosmjólkina sem kemur seinna í súpuna. Steikja rauðlaukinn vel og vandlega, þangað til hann er orðinn vel sætur. Gefa þessu góðar 10 mínútur. Henda þá út í hvítlauk í nokkrar mín. og því næst fer engiferið út í, steikja allt vel en þó við vægan hita.

Næst er að henda út í sætu kartöflunni og gulrótunum og leyfa þeim að mýkjast í pottinum í 5-8 mín. Þá er komið að curry pastinu, henda því út í pottinn og hræra því vel saman við laukinn og rótargrænmetið.

Skolið linsurnar vel og vandlega og bætið svo út í pottinn og hrærið öllu saman. Kasjúhnetur fara næst út í og þar á eftir vökvinn: Kókosmjólkin, tómatpurée og vatnið. Hræra öllu vel saman og ná upp suðu. Bæta grænmetiskrafti út í.

Sjóða í 40 mínútur á vægum hita og athuga að hræra reglulega í súpunni til að koma í veg fyrir að brenni í botninn. Að lokum þarf að salta og pipra og smakka sig til. Áður en súpan er borin fram þarf svo að múla hana með töfrasprota svo hún verði mjúk og kremkennd.

Gott er síðan að klippa ferskan kóríander út á súpuna þegar hún er komin í skálar. Mér finnst alltaf nauðsynlegt að bera súpur fram með einhverju brauðmeti en það er í sjálfu sér valfrjálst. Sem og franska súkkulaðikakan í eftirrétt en hún fær samt mikil meðmæli frá mér.

Og þetta er uppskriftin að því hvernig koma skal suður Indlandi í skálar á Íslandi. Og líka hvernig gera skal fólk hamingjusamt og brosmilt!

El día de supa de Baldur

Engin ummæli: