Eins og ég sagði frá í gær þá fórum við í langan hjólatúr á síðasta degi mánaðarins. Mig vantaði nauðsynlega að komast út með myndavélina og heilsa upp á haustið. Áður en maður veit verður það liðið, og ég er rétt svo að átta mig á því að vorið með sínu brumi sé liðið. Ketchup maður!
Við hjóluðum út Fossvoginn og inn í Fossvogsdal. Ég með norskt ullaeyrnaband og fóðraða vettlinga í tíu gráðu hita var fljót að kasta af mér flíkunum í körfuna. Það var svolítið af fólki að hjóla og ganga og á göngubrautinni úr Fossvoginum yfir í dalinn vissu fótgangandi ekki í hvorn fótinn þeir ættu að stíga þegar sótt var að þeim úr báðum áttum af hjólandi görpum.
Úr Fossvogsdalnum héldum við inn í Elliðaárdalinn og þar stoppaði ég víða til að viðra myndavélina og anda að mér loftinu. Ein kanína kom skoppandi að mér og þefaði af útréttri hönd, svo hélt hún sína leið. Reyniberin eru víða spræk og ég gat ekki betur séð en að búið væri að kroppa í marga berjaklasana. Mér skildist reyndar að fuglarnir kærðu sig ekki um berin fyrr en eftir fyrsta næturfrost svo kannski eru það trjáálfarnir sem þarna eru að verki. Kannski vantaði þá einhvern súbstans í súpu, hvað veit maður? Nema að næturfrost hafi laumað sér yfir borgina eina nóttina að mér óaðvitandi? Fuglarnir eru alltént ánægðir.
Litirnir í Elliðaárdalnum eru stórfenglegir og fara einhvern veginn beinustu leið inn að kjarna. Mig langar að mynda þetta allt en á sama tíma veit ég að augun og vitundin eru hæfust um að móttaka það sem er í kringum mig, og þá er alltaf spurningin hvort maður eigi ekki að leggja myndavélina frá sér í nokkur augnablik og bara njóta. Leyfa náttúrunni að hafa sín áhrif á mann. Hún er eftir allt saman magnaðasta aflið hér á jörð.
Þegar við vorum komin upp að sundlauginni brunuðum við hratt niður. Vatnið fyrir ofan stífluna var óvenjuhátt og þegar við hjóluðum yfir stíflubrúnna voru endurnar duggandi rétt við fætur okkar. Það var kostulegt.
Hér er síðan haustið í öllu sínu veldi. Ah, anda og njóta og hafa augun opin!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli