Þessi hringur er að festast í sessi hjá mér sem Hringurinn sem ég geng:
Út Snorrabraut í áttina að Öskjuhlíð, yfir ljósin hjá Gömlu hringbraut, út að Valsheimilinu, þar til hægri inn á lítinn göngustíg sem liggur meðfram Valsheimilinu, yfir bílastæðið vinstra megin, í gegnum undirgöngin, upp og áfram í átt að Öskjuhlíð.
Geng þann stíg, milli trjánna og sé regnboga, staldra við hjá HR til að taka mynd. Áfram stíginn í átt að Fossvogskirkjugarði og inn þar. Hitti kelukisu sem vill ekki sleppa af mér takinu, ég er svo góður klórari.
Inn í kirkjugarðinn vestanmegin og svo fer ég einhverja leið í gegnum garðinn. Það tekur mig mislangan tíma að þvera garðinn, stundum sest ég á bekk, stundum stend ég yfir spegilmynd í polli með myndavél, stundum reyni ég að tala við kanínu eða lokka til mín spörfugl.
Ég fer síðan út úr garðinum norðan til og held þá oftast í átt að Perlunni til að koma mér þaðan niður að Lönguhlíð, yfir Klambratúnið, út Skeggjagötu, inn á Snorrabraut, yfir Snorrabraut og komin heim.
Í dag fór ég reyndar aðeins aðra leið og í stað þess að fara úr kirkjugarðinum og yfir að Perlunni fór ég yfir að Veðurstofu Íslands og meira að segja upp á þakið til að ná mynd af borginni. Brölti þaðan niður í Stigahlíð og yfir í Kringluna. Kíkti í Søstrene Grene til að verða mér úti um tréliti og teikniblokk.
Þegar ég hafði erindast og ætlaði að halda för minni áfram var komin grenjandi rigning. Og hvað gerir maður þá? Það er svo einfalt, maður blotnar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli