miðvikudagur, 31. júlí 2013

Bókarabbið: Júlíbækurnar

Júlíbækur 2013

Ég er mikill bókaormur. Þeir sem þekkja mig vita það. Allar afmælis- og jólagjafir frá 14/15 ára og vel fram yfir tvítugt voru bækur og bara bækur (nánast). Bókalestur er áhugamál mitt numero uno. Í ár hef ég notið þess að lesa eins mikið og mig lystir, og farið eins margar ferðir á bókasafnið og ég vil. Nú þegar ég hef kindle er ég enn frjálsari og les eins og mér sé borgað fyrir það (sem væri náttúrulega besta starf í heimi).

Ég ætla að blása til nýs pistils og kalla hann Bókarabbið. Hugmyndin er að taka fyrir þær bækur sem ég hef lesið í hverjum mánuði fyrir sig. Ég geri ekki ráð fyrir að þetta verði mánaðarlegur pistill heldur frekar þegar á við. Það eru ekki allir mánuðir gjöfulir, stundum les maður bara lélegar bækur (og þær nenni ég ómögulega að skrifa um) og stundum nær maður ekki að lesa neitt.

Talandi um að lesa, venjulega les ég ekki mikið á sumrin en þetta sumar hefur orðið undantekning á. Ég hef verið í miklu lestrarstuði, og svo hjálpar að hafa góðan frítíma. Þetta eru einar sex bækur, sem er ekki mikið miðað við fyrstu mánuði ársins þegar ég náði 10-11 bókum á mánuði, en miðað við að ég er tiltölulega nýflutt og það er bongóblíða upp á hvern einasta dag, þá er ég ansi sátt. Mögulega gekk svona vel að lesa þennan mánuðinn því flestar bókanna sem ég las í júlí voru bækur sem ég hafði beðið eftir í svolítinn tíma, og það með eftirvæntingu.

Nú er bara að demba sér í 'etta.

The Invisible Bridge (2010)
Julie Orringer er virkilega fær rithöfundur. Henni tókst að heilla mig með smásagnasafni sínu. Venjulega, fram til þessa allavega, hef ég lítið haft saman að sælda með smásögum, en ein jólin gaf Baldur mér smásagnasafn Julie, How to Breathe Underwater, og sögurnar hafa ekki slitið sig frá mér síðan. Þær fylgja mér hvert sem ég fer og minna reglulega á sig því mér verður oft hugsað til þeirra. Til dæmis núna í sumar, þegar við hjólum daglega út að tjörn til að stinga okkur út í, þá kemur ein saga úr safninu sérstaklega upp í huga mér. Að þessu leytinu minnir safnið á bók Geraldine Brooks, People of the Book, sem er uppbyggð eins og margar smásögur en þó í formi skáldsögu, og rauði þráðurinn er bókin sem tengir kynslóðir og heimssvæði. Önnur frábær bók sem er alltaf að poppa upp í huga mér, og sem ég get ekki mælt með nógsamlega.

Eníveis, þessi fyrsta skáldsaga Julie Orringer er mikil í sniðum og hún veldur öllum þráðunum vel: plottinu, persónunum, sögusviðinu, tímanum. Sögusviðið er París og Búdapest fyrir seinni heimsstyrjöld og síðan færist sagan inn í styrjöldina sjálfa. Ég nýt þess alltaf að lesa sögulegan skáldskap, og sérstaklega þegar höfundur leggur upp úr því að draga fram smáatriði sem varpa ljósi á tímann, samfélagið og sögusviðið, sem Julie einmitt gerir mjög vel. Það sem situr helst eftir hjá mér eru lýsingar á andrúmsloftinu í París rétt fyrir stríð og frásögnin af þessu kæruleysislega stúdentalífi sem Andras, aðalpersónan, lifir. Ég get alveg mælt með þessari.

Swamplandia! (2011)
Karen Russell er búin að vera á radarnum mínum í svolítinn tíma. Margir bókabloggarar hafa lofsamað fyrstu söguna hennar, St. Lucy's Home for Girls Raised by Wolves (2006), og það sama má segja um nýjustu bók hennar sem kom út fyrr á árinu, Vampires in the Lemon Grove.

En Swamplandia! er fyrstu kynni mín af Karen Russell og nú er forvitni mín vakin. Hún er flink og fær. Henni tekst að draga upp áhugaverðan heim í Flórídafenjunum þar sem við fylgjumst með Övu og fjölskyldu henna leggja allt í sölurnar til að halda uppi fjölskyldurekna krókódílabúgarðinum/skemmtigarðinum.

Það er margt vel gert í þessari smíð. Kareni tókst að vekja áhuga minn (þarf reyndar ekki svo mikið til, en vott evv), vekja forvitni mína og gera mig spennta að sjá málin leyst á einn eða annan veg. Þeir kaflar, sem að mínu mati draga úr lestraránægjunni, eru kaflarnir þar sem við fylgjumst með ævintýrum bróður Övu. Hins vegar voru ævintýri systur hennar miklu áhugaverðari og þau knúðu í raun söguna áfram.

Það er margt vel gert upp á að ná ákveðinni stemmningu í frásögnina og Karen kryddar söguna með mörgum skemmtilegum lýsingum og pælingum um heiminn sem koma úr hugarfylgsni Övu. En það er einnig ýmsu ábótavant þegar kemur að því að halda góðu frásagnarflæði. Það gengur ekki að maður spóli í gegnum suma kaflana en komist varla fram úr öðrum fyrir leiðindum. Engu að síður, fyrir aðdáendur fantasíu til dæmis, ætti Swamplandia! að vera skemmtileg lesning.

Life After Life (2013)
Eins og kom fram í síðasta helgarannáli þá lá ég allan þarsíðasta laugardag og las nýjustu bók Kate Atkinson. Flatmagaði á teppi, kúrði upp í sófa (undir teppi). Kate Atkinson er breskur rithöfundur og mér finnst hún alveg frábær. Ég náði einmitt þeim merka áfanga fyrr á árinu að lesa allar bækurnar sem hún hefur gefið út, meira að segja smásagnasafnið hennar, og var búin að bíða spennt eftir þessari nýjustu.

Af fyrri bókum hennar er ég sérstaklega hrifin af Behind the Scenes at the Museum og Human Croquet. Kate Atkinson hefur einnig skrifað glæpasögur um einkaspæjarann Jackson Brodie, sem eru skemmtilega öðruvísi en aðrar glæpasögur. Ég sá sex þátta BBC seríuna fyrir nokkru, sem tekur á fyrstu þremur bókunum úr seríunni og kallast einfaldlega Case Histories. Sögusviðið er Edinborg og karakterarnir eru hver öðrum sérvitrari. Frábært sjónvarpsefni.

En í Life After Life tekst Kate Atkinson á við stórar hugmyndir, eða kannski bara eina hugmynd: Tækifæri. Tækifæri til að gera aftur betur. Aðalsöguhetjan, Ursula, fæðist að morgni árið 1910 en deyr strax á fyrstu augnablikunum. Hún endurfæðist strax inn í sömu fjölskyldu og deyr sem smábarn. Endurfæðist strax inn í sömu aðstæður og deyr fljótlega aftur, en aðeins eldri í þetta sinn. Í hver skipti tekst henni, þó ekki alltaf í fyrstu tilraun, að komast hjá hverju því sem veldur því að hún deyr í hverjum aðstæðum fyrir sig. Ef þetta hljómar ótrúverðugt eða eitthvað í ætt við vísindaskáldskap þá er það klaufalegum úrdrætti mínum um að kenna, og þar með alfarið á mína ábyrgð, því það er ekkert klaufalegt við þessa sögu sem Kate Atkinson hefur sent frá sér.

Ég hlustaði á viðtal við hana um daginn og þá var hún spurð út í hvort Ursula væri sér á einhverjum tímapunkti meðvituð um örlög sín, þ.e. að hún fæddist alltaf aftur og aftur og fengi því ótakmörkuð tækifæri til að rétta það sem úr skorðum fór síðast. Kate sagðist ekki hafa viljað skrifa neitt afdráttarlaust"aha!" móment inn í söguna, og vildi frekar að Ursulu grunaði hvernig í málunum lægi. Ég vil ganga enn lengra og segja að Ursulu grunar aldrei hvernig í pottinn er búið, heldur öðlast hún innsæi og það brýst út sem jákvæð eða neikvæð tilfinning í tilteknum aðstæðum, sem hún stundum tekur mark á (og stundum ekki: ó nei, nú deyr hún aftur!).

Að sjálfsögðu er þetta viðfangsefni mjög heimspekilegt. Life After Life minnir mjög á eina af mínum uppáhaldskvikmyndum, Groundhog Day, sem er líka mjög heimspekileg og mjög svo af sama toga, þ.e. aðalpersónan fær ótakmörkuð tækifæri til að upplifa saman daginn og bæta það sem betur má fara. Endurfæðing og karma, búddismi og hindúismi.

Ég ætla hins vegar ekki að fara dýpra í þessa umfjöllun því ég þarf að komast úr sporunum. En læt þessi lokaorð fljóta með: Virkilega frábær bók! Kate Atkinson hefur frábært vald á viðfangsefninu, henni tekst að tækla þessa flóknu hugmynd svo vel og hún útfærir hana snilldarlega. Engar endurtekningar, alltaf fersk og ný efnistök í hverjum kafla þrátt fyrir að plottið bjóði auðveldlega upp á sífelldar endurtekningar. Mæli með'enni!

And the Mountains Echoed (2013)
Khaled Hosseini er virkilega snjall rithöfundur. Hann er svo snjall að ég las seinni partinn af Flugdrekahlauparanum upphátt fyrir Baldur (þá var hann með Delhi belly á ströndinni í Goa), og síðan, þegar við vorum stödd í Kuala Lumpur á þeim tíma þegar önnur bók hans kom út, arkaði ég inn í næstu bókabúð, keypti og las Þúsund bjartar sólir á einu bretti, fyrst í einrúmi og síðan upphátt fyrir Baldur. Hann bara varð að heyra þessa sögu.

Líklega hef ég gert mér of miklar væntingar því ég varð fyrir svolitlum vonbrigðum með þessa nýjustu bók Khaleds. Hann er náttúrulega alltaf flinkur höfundur og maður rekst ekki á nein byrjendamistök. Allt er vel slípað og pússað. Og ég held ekki að form sögunnar hafi verið að truflað mig. Hann segir sögur nokkurra persóna sem tengjast mismiklum böndum. Við fylgjumst með dóttur sjá um aldraðan föður sinn í Kalíforníu, við fylgjumst með eldri manni í Kabul og einkaþjón hans, við kíkjum á lífið á lítilli, grískri eyju og svo fáum við að upplifa París. Khaled vefur þessar sögur saman afskaplega vel, og hver þeirra varpar ljósi á fortíð eða framtíð persóna í hinum sögunum. Það krefst geysilegrar færni af hálfu höfundar að takast svona vel upp við flókinn vefnað.

Hvar koma þá vonbrigðin inní? Fyrir mér voru það persónurnar. Ég small eiginlega ekki saman við neina þeirra. Mér þóttu þær ýmist óáhugaverðar, of veiklundaðar, of illkvittnir... Það má í raun segja að þær persónur sem vöktu mestan áhuga hjá mér hafi verið aukapersónurnar. Mig langaði að heyra meira af þeim. Og mig langaði í rauninni, ef ég á að vera alveg hreinskilin, að lesa meira um Afganistan. Líkast til hefur mig langað í Flugdrekahlauparann II eða Þúsund bjargar sólir II. Önnur vonbrigði sem ég get talið til: Í mínum huga liggur einn af aðalstyrkleikum Khaleds í kraftmiklum, hrífandi og frumlegum myndlíkingum, og þeirra saknaði ég í And the Mountains Echoed.

Það virkar á mig eins og Khaled sé að reyna eitthvað nýtt með þessari sögu, hugsanlega er hann að ögra sjálfum sér sem rithöfundi. Mér finnst sem ég sjái það í stílnum, uppbyggingunni og umfjöllunarefninu. Hins vegar finnst mér hann reyna of mikið að gera eitthvað nýtt á kostnað þess að láta frá sér frábæra sögu. En jafnvel þegar hann veldur mér svolitlum vonbrigðum þá er Khaled samt sagnameistari. Ef maður er aðdáandi verka hans þá les maður þessa bók. Og ég fæ ekki betur séð en að meirihluti lesenda sé hæstánægður með nýju bókina, og það gleður mig því ég get ekki áætlað hve stór hluti vonbrigðanna liggur á miklum væntingum. Ætli ég lesi þessa bók ekki aftur einn daginn og taki stöðuna.

The Yonahlossee Riding Camp for Girl (2013)
Hér er önnur söguleg skáldsaga á ferðinni. Höfundurinn er Anton DiSclafani og ef þú ert eins og ég og dregur þá ályktun að höfundurinn sé karlkyns, þá hefurðu rangt fyrir þér. Það er hún Anton sem skrifaði þessa sögu, og það var ágætt að ég komst að því í tæka tíð, svo ég héldi ekki áfram að hugsa: hann veit augljóslega ekkert um táningsstúlkur...

En þetta hljómar eins og ég hafi ekki verið hrifin af sögunni. Sem er ekki allskostar rétt. Ég hakkaði hana í mig og tókst samt að staldra við og anda að mér andrúminu og öllum smáatriðunum. Það var einmitt í ýmsum smáatriðum sem mér fannst henni Anton takast svo vel upp. Það voru hugleiðingar, vangaveltur og athuganir varðandi heiminn og umhverfið sem vöktu hjá mér ýmist sterkar tilfinningar, aðdáun eða aha!

Antoni tekst vel að skapa stemmningu og andrúmsloft, sem er alltaf stór plús í mínum kladda. En það er sögusviðið sem heillaði mig mest í þessari sögu: heimavistarskóli/knapaskóli fyrir stúlkur í Blue Ridge fjöllum Kentucky 1930. Kentucky er ekki sögusvið sem ég rekst oft á í skáldsögum og hvað þá reiðknapaskóli fyrir stúlkur í heimavist. Við fylgjumst með drama í lífi unglingsstúlkna og þeim áskorunum sem þær standa frammi fyrir á þessum stað og þessum tíma. Það eru nokkrar lýsingar á útreiðatúrum, sem ég hef allra jafna ekki áhuga á, en höfundi tekst mjög vel að koma þeim lýsingum frá sér og passar upp á að þær eigi heima í sögunni. Mæli ég með henni? Why, yes!

The Light Between Oceans (2012)
Það er skemmtileg saga á bak við það hvernig þessi bók komst á radarinn minn. Í fyrrahaust var ég að fylgja leiðbeiningum frá góðkunningja mínum honum Randy Ingermanson um hvernig maður skrifar skáldsögu (the snowflake method). Eitt af fyrstu skrefunum er að fara inn á The New York Times og skoða metsölulistann þeirra, nánar tiltekið lesa og tileinka sér þessar hnitmiðuðu einnar setningar lýsingar  á sögunni. Þar rak ég augun í titil sem hreif mig strax (The Light Between Oceans) og hnitmiðaði úrdrátturinn gerði einmitt það sem honum er ætlað: vekja áhuga minn. Ég er því búin að bíða spennt eftir þessari bók síðan í september í fyrra.

Loksins þegar ég komst í að lesa bókina ætlaði ég ekki að geta slitið mig frá sögunni. Og það er mjög skiljanlegt: heillandi sögusvið og sögutími, áhugaverð vandamál sem persónurnar kljást við, vandaður prósi... Sögusviðið er Ástralía eftir fyrri heimsstyrjöld. Við fylgjumst með aðalpersónunum, Tom og Isabel, kynnast, verða ástfangin og giftast. Tom vinnur sem vitavörður og Isabel flytur til hans út á mjög svo afskekkta eyju þar sem einu samskipti þeirra við umheimin koma í formi vistabáts og tveggja sjóara sem sigla vistunum út til þeirra. Einn daginn rekur upp í fjöruna árabát og í bátnum er látinn maður og grátandi ungbarn.

Ég gef ekki meira uppi um framvinduna, en þaðan sem þessari lýsingu sleppir tekur við áhugaverð saga um afleiðingar gjörða manns. Þetta hljómar sem ansi þung og alvarleg saga, svo til að taka af allan vafa vind ég mér beint í hrósið. Mér finnst þessi bók afspyrnuvel skrifuð. Hér er enn og aftur á ferðinni höfundur (M.L. Stedman) sem er frábærlega fær í að draga fram stemmningu og blása lífi í löngu liðinn tíma. Þá er hún einnig mjög flink í að skapa persónur og gefa þeim áhugaverð verkefni/vandamál í sögunni. Þegar ég las bókina hugsaði ég oft: þetta er allt svo meitlað og fínpússað. Hér hefur verið legið yfir hverri setningu og hverju orði og allt auka og umfram fjarlægt.

Plottið, persónurnar, sögusviðið, vandamálin sem persónur þurfa að kljást við: allt er gert af mikilli natni og umhugsun. Hér eru engin vonbrigði á ferðinni, heldur margra mánaða tilhlökkun sem síðan blómstraði í algjöra gleði við að lesa söguna. Ég get ekki nógsamlega mælt með þessari sögu, jafn fyrir þá sem njóta að lesa sögur plottsins vegna sem og fyrir þá sem njóta stíls og góðs handbragðs höfundar.

Og með þessum orðum slaufa ég þessu fyrsta Bókarabbi. Ég sé fram á nokkurn bókalestur næsta mánuð svo kannski sjáumst við aftur í lok ágúst!

Engin ummæli: