miðvikudagur, 14. ágúst 2013

Fantekjerringkollen

Fantekjerringkollen

Á göngum okkar um svæðið í kringum Åletjern þrömmum við iðulega framhjá skilti sem á stendur Fantekjerringkollen. Höfum heyrt heimamenn mæla með göngu þangað upp en ekki látið verða af því. Um daginn tókum við svo skyndiákvörðun um að drífa okkur upp.

Samkvæmt skiltinu er ekki um að ræða langa göngu. Við þrömmum. Við þrömmum meira og komum að öðru skilti sem upplýsir okkur um að við höfum gengið 300 metra. Jæja, þeir eru drjúgir kílómetrarnir hérna í hæðunum, nema mælingamaðurinn mæli bara í beinum línum.

Nú er sól farin að lækka á lofti. Við örkum áfram þessa fallegu leið, í gegnum friðsælan skóg og sjáum glitta í kvöldsólina á milli trjánna. Þá vitum við að við erum komin nálægt toppinum. Skógurinn þynnist og viti menn, við erum komin á toppinn. Við okkur blasir Þelamörk vítt og breitt eða að minnsta kosti dágóður slatti af trjám, vatni og undurfagurt sólarlag.

Þarna sitja nokkrir sem augljóslega eru í fastri áskrift að sólsetrinu á Fantekjerringkollen og einn þeirra fræðir okkur svolítið um það sem fyrir augu ber. Að auki fáum við vænan skammt af sögum um ættingja hans nokkra ættliði aftur, hvar hver hefur unnið, búið, drukknað og ýmislegt fleira sem gerist á löngum tíma.

Þetta er hugguleg stund. Svo hugguleg að við ætlum varla að hafa okkur í bakaleiðina þrátt fyrir að hver mínúta þýði meira myrkur í skóginum. Þetta hefst þó og nú höfum við klifið þennan fagra koll.

Engin ummæli: