mánudagur, 30. september 2013

Bókarabbið: septemberbækur

Septemberbækur
 
Hér kemur stutt samantekt á bókalestri mánaðarins. Bækur mánaðarins skiptust sem hér segir:
 
1 áhugaverð sögulega séð (The Sandcastle Girls)
1 leiðinleg (A Thousand Acres)
1 stórkostleg (Borða, biðja, elska)
2 tilgerðarlegar (Looking for Alaska & The Age of Miracles)
1 óþolandi (A Discovery of Witches)
2 virkilega góðar (The Graveyard Book & The Golem and the Djinni)
1 góð afþreying en óeftirminnileg (The Saturday Big Tent Wedding Party)
1 rokkandi milli góðrar og virkilega góðrar (Neverwhere)
1 góð en þreytandi á sama tíma (Kirkja hafsins)
 
= 11 bækur í september

Hér að neðan tek ég fyrir þrjár bestu bækur mánaðarins. 
 
Eftir að hafa lesið The Ocean at the End of the Lane, og gefið henni slíka stjörnudóma, fór mín í Neil Gaiman gírinn. Ég greip í The Graveyard Book og að lesa hana var svolítið eins og að takast að halda áfram með góða drauminn sem mann var að dreyma þegar maður vaknaði.
 
Gaiman er snillingur.
 
Honum tekst að skapa svo áhugaverða heima með svo einföldum hætti. Töfrandi, ógnvekjandi, dreymandi, líðandi, fangandi... þetta eru fyrstu orðin sem koma upp í hugann þegar ég hugsa um stílinn hans Gaiman.
 
Það er kannski best að vera ekkert að reyna að ritrýna þessa bók. Farið bara og lesið hana. Ég lofa að tímanum er vel varið.
 
Ég hlustaði á nokkur viðtöl við Helene Wecker, höfund þessarar bókar, eftir að ég lauk lestri bókarinnar. Þar sagðist hún hafa unnið að þessari bók í einhver sjö ár, og undir lokin var hún farin að raða saman púslunum með flísatöng. Hún vandaði sig mjög við alla fínpússun og það borgaði sig. Sagan stígur fullsköpuð fram á sjónarsviðið og hrífur mann með sér frá fyrstu blaðsíðu. Ég hafði nokkrar væntingar til sögunnar áður en ég hóf lesturinn og varð ekki fyrir vonbrigðum.
 
Hér fáum við að kynnast dulmögnuðum verum úr ólíkum heimshornum: Annars vegar er það leirkonan Golem, sem búin er til af útskúfuðum rabbí í gyðingasamfélagi Póllands, og hins vegar er það Djinni, andinn sem vanur er að blása frjáls um eyðimerkur Sýrlands en uppgötvar í upphafi sögunnar að hann hefur verið lokkaður og hlekkjaður við flösku.
 
Spennandi? Jáhá!
 
Svo nú vitið þið af hverju ég fór spennt af stað. Og góðu fréttirnar eru þær að ég kom út hinu megin með bros á vör. Virkilega vel skrifuð, rannsökuð, útfærð og stílfærð. Persónunum tókst að vekja áhuga minn, samúð og hrifningu. Sögusviðið (New York, Sýrland, Pólland) hreif mig, en hrifnust var ég, eins og vanalega, af sögutímanum. Sögutíminn hér er ansi breiður, ef svo má að orði komast, því við fylgjum sumum persónum aftur til að því er virðist tíma Biblíunnar, en helsta áherslan er á árið 1899 þegar sagan hefst.
 
Allt verður betra þegar það er sett í sögulegan búning. Sögulegur búningur er svolítið eins og smjör að því leytinu til...
 
Eníveis, ég mæli sko alveg með þessari! 
 
Hér er á ferðinni bók sem er ansi umtöluð, enda metsölubók í meira lagi. Eða hvað kallar maður bók sem hefur selst í tíu milljónum eintaka um heim allan og sat samfleytt í þrjú og hálft ár á metsölulista The New York Times? Mememememetsölubók? Eða langalangalangalangametsölubók? Ég veit það ekki. Megabók kannski.
 
Það finnst mér allavega, algjör dúndurmega bók. Ég las þessa bók fyrst veturinn 2010 þegar ég fékk hana að láni á safninu. Í þetta sinn gat ég lesið mitt eigið eintak sem ég var svo heppin að kaupa á útsölu í Eymundsson áður en við héldum utan. Þannig hefur það æxlast að ég hef í bæði skiptin lesið hana á íslensku, sem er frekar óvenjulegt fyrir mig þar sem ég kýs að lesa enskar bækur á ensku. Íslenska þýðingin er hins vegar ansi fín í flesta staði, sem betur fer.
 
En það sem er kannski markverðast við þennan lestur er að ég las alla bókina upphátt fyrir Balduro mio.
 
Ok, lítum aðeins nánar á þetta. Ég var búin að lesa bókina, keypti hana svo og las aftur, og í þetta sinn upphátt fyrir manninn minn svo hann fengi ábyggilega notið sögunnar. Haldiði að ég sé hrifin?
 
JÁ!
 
Ég er big time Elizabeth Gilbert aðdáandi. Ég fylgist með henni á facebook. Ég er áskrifandi að fréttabréfunum hennar. Ég las Committed sem er sjálfstætt, óbeint framhald af Eat, Pray, Love. Ég elska TED fyrirlesturinn hennar. Ég býð spennt eftir nýju skáldsögunni hennar sem kemur út Á MORGUN!
 
En hvað með Borða, biðja, elska? Hvað hrífur mig svona við þessa sögu?
 
Það er fyrst og fremst Elizabeth sjálf. Hún er mögnuð manneskja. Hún berskjaldar sig, talar ófeimin um leit sína að Guði og tilgangi, hún er íhugul, pælandi, fyndin, hnyttin, bráðgreind, vel lesin, rosalega fær penni og síðast en ekki síst er hún hispurslaus. Hún talar um mál sem skipta máli en gerir það á þann veg að maður situr við borð og hlustar á innihaldsríkt samtal.
 
Svo er náttúrulega ekki hægt að segja nei við ókeypis ferðalagi til Ítalíu, Indlands og Indónesíu.
 
Lesið bókina gott fólk.
 
Jæja, þetta var í styttri kantinum þennan mánuðinn en ég kveð ykkur með þessum vísdómsorðum:

Enginn fitnar af fögrum orðum (hjúkket).
 

Engin ummæli: