föstudagur, 27. september 2013

Kaffimöffins

Kaffumöffins

Í glósubókinni sem ég tók með mér til Bordeaux veturinn 2000 kallast þessar möffins 'jógúrtkökur', en kaffimöffins er meira sexý svo þær heita það hér með.

Þessar möffins tengi ég við æskuárin í Selásnum því mamma bakaði þær ansi oft þar. Ég man að ég stóð oft fyrir framan ofninn og horfði á þær bakast og gat varla beðið eftir að þær kæmu út úr ofninum. Svo varð maður að bíða í smá stund og leyfa þeim að kólna, en maður beið aldrei of lengi og loksins beit maður í heita og mjúka kökuna og fékk bráðið súkkulaði á varirnar.

Ah, hvernig væru æskuminningarnar ef engar hefðu verið kökurnar?

Þetta voru fyrstu möffins sem ég bakaði og ég hef því bakað þær ansi oft í gegnum tíðina. Í fyrstu bakaði ég þær bara í pappírsformunum, sett alltaf of mikið deig í hvert form og uppskar lágréttar möffins! Nú hefur mér lærst að setja pappírsformin í 3x4 álformið mitt, og þá koma þær allar gullfallegar og fagurskapaðar úr ofninum. Lóðréttar en ekki lágréttar!

Ef fyrir þér er komið eins og mér, þ.e.a.s. þú ert stödd/staddur ýmist í Frakklandi eða Noregi (hef bakað þessar möffins í báðum löndum) og finnur ekki kaffijógúrt, þá er einfalt að búa hana til sjálfur með því að sæta hreina jógúrt (180 g) og bæta útí instant kaffi. Það gerði ég við þessar og kaffijógúrtin mín var alveg á par við þá sem maður kaupir heima frá MS.

Uppskriftin dugar í svona 30 möffins.

Þetta er ferlega einfalt, hefjumst handa.

HVAÐ
3 egg
2 bollar sykur
220 g smjör, við stofuhita
1 dós kaffijógúrt
1 tsk vanilludropar
2,5 bolli hveiti
0,5 tsk matarsódi
150 g suðusúkkulaði, saxað

HVERNIG
1. Hitið ofninn í 175°C.
2. Þeytið saman egg og sykur.
3. Bætið við smjöri, jógúrt og vanilludropum og hrærið vel saman.
4. Sigtið þurrefnin útí og hrærið saman (NB! ekki of vel því nú er matarsódinn kominn útí).
5. Bætið að lokum súkkulaðinu út í og blandið varlega saman við deigið með sleif.
6. Notið skeið til að deila deiginu út í bréfform. Fyllið 2/3 af hverju formi.
7. Inní ofn í 20-25 mín.

Þessar eru alveg æðislegar með ískaldri mjólk. Mmm...

Kaffimúffur
 
Kaffimúffur

Engin ummæli: