miðvikudagur, 11. september 2013

Kanilsnúðar með rjómaostsglassúr

Kanilsnúðar með rjómaosti

Þessa kanilsnúða smakkaði ég í fyrsta skipti í IKEA þegar húsgagnaframleiðandinn hélt sænska kanelsnúðadaginn hátíðlegan. Það voru nokkrar ólíkar tegundir af snúðum í boði frá ólíkum bakaríum, en þeir sem bakari IKEA reiddi fram voru alveg sjúklega góðir. Vitfirrtir alveg.

Ég bakaði þessa snúða um daginn, í annað sinn. Uppskriftin eins og hún kemur af beljunni er risavaxin og því finnst mér best að helminga hana, svo maður sé ekki að jappla á snúðum fram til jóla.

En hvað er svona gott við þessa snúða? Þeir eru stökkir að utan en mjúkir inní, fyllingin er sæt, krydduð og djúsí, og síðan toppar rjómaostsglassúrinn snúðana, bókstaflega.

Það getur verið ágætt að kalla á fólk í kaffi þegar maður bakar þessa, svona til að friða samviskuna.

Hér kemur full uppskrift. Ég hef aðeins breytt  hlutföllum, minnkað sykur og bætt við hálfu eggi (uppskriftin frá IKEA kveður á um tvö og hálft egg! Þeir eru með fjölhæfar hænur á sínum bæ, ég segi ekki annað). Upphafleg uppskrift er í bollum og grömmum en ég viktaði þurrefnin því mér finnst betra að vinna eftir vikt en ónákvæmum bollum, og uppskriftin hér að neðan endurspeglar það.

HVAÐ
Deigið:
25 g pressuger (2,5 tsk þurrger)
1 bolli mjólk
2 stór eða 3 meðalstór egg, við stofuhita
75 g smjör, við stofuhita
800 g hveiti
130 g sykur
0,5 tsk salt

Kanelfyllingin:
500 g smjör, bráðið
400 g púðursykur
2-3 msk kanill

Rjómaostsglassúrinn:
85 gr rjómaostur, við stofuhita
200 g flórsykur
55 g smjör, við stofuhita
1 tsk vanilludropar
Salt af hnífsoddi

HVERNIG
1. Hrærið saman pressugeri/þurrgeri og 37-39°C heitri mjólk þar til gerið er uppleyst. Látið standa í 5 mínútur.
2. Bætið við eggjunum og smjörinu og hrærið saman með þeytara.
3. Bætið þurrefnum við (hveiti, sykur, salt). Ef notast er við hrærivél: hnoðið í 5-8 mín. Fyrir okkur hin: hræra vel saman með sterkri sleif í dágóða stund. Deigið á að vera blautt en þegar það fer að losna frá hliðum skálarinnar er búið að hræra nóg.
4. Smyrjið skál með matarolíu, skellið deiginu í og látið lyfta sér á volgum stað undir rökum klút þangað til það hefur tvöfaldast að stærð (40-50 mín.).
5. Á meðan deigið hefast er best að vinda sér í kanelfyllinguna. Hrærið saman púðursykri, kanil og bræddu smjöri og kælið niður þar til blandan hefur tekið að stífna.
6. Stráið hveiti á hreinan flöt. Hnoðið deigið þangað til áferð þess er orðin falleg og jöfn.
7. Skiptið deiginu í tvennt til að ráða betur við stærðina á því. (Ef þið hafið helmingað uppskriftina eins og ég gerist ekki þörf á að deila deiginu).
8. Fletjið hvorn helming fyrir sig út í 40 x 25 sm. Kappkostið að ná deiginu þunnu, það gerir snúðana skemmtilegri.
9. Smyrjið fyllingunni jafnt yfir.
10. Rúllið deiginu upp í langa rúllu, leyfið sárinu að snúa niður.
11. Skerið 2 sm breiða snúða og raðið á klædda ofnplötu. (Þegar ég sker bungast önnur hliðin iðulega út og þá hlið læt ég snúa niður svo yfirborð snúðarins sé jafnara)
12. Breiðið yfir snúðana með rökum klútum og leyfið þeim að lyfta sér í 40-50 mín.
13. Hitið ofninn í 200°C.
14. Bakið snúðana í miðjum ofni í þann tíma sem tekur að gefa þeim fallegan, gullbrúnan lit.

Jömmjömmjömm!

Kanilsnúðar með rjómaosti
 
Kanilsnúðar með rjómaosti
 
Kanilsnúðar með rjómaosti
 
Kanilsnúðar með rjómaosti
 
Kanilsnúðar með rjómaosti

Engin ummæli: