Myndin í gær var alveg frábær og við grenjuðum úr hlátri. Svona er að vera Woody Allen aðdáandi, það er ljúft.
Í dag höfum við hins vegar snúið okkur að öðrum og alvarlegri málefnum. Smá útréttingar í bankanum og allt þetta hefðbundna sem klára þarf þann 1. hvers mánaðar. Að því loknu töltum við niður í miðbæ til að kíkja á bókasafnið en festumst í köngurlóarvef á leið þangað, nefnilega geggjuðu ljósmyndasýningunni á Austurvelli.
Við vorum þegar búin að skoða slatta af myndum í einu horni Austurvallar og fórum því núna í annað horn þar sem við sáum m.a. sláturhús í Indlandi, litunarker í Marokkó, baðmullarsnepla lagða til þerris í Indlandi og íbúðarblokk í fátækrahverfi í Brasilíu.
Mettuð af fegurð náttúru og mannkyns losuðum við okkur úr vefnum og komumst loks á bókasafnið. Tilgangur ferðar okkar þangað var að birgja sig upp af góðum og velvöldum kvikmyndum fyrir helgina.
Við ætlum nefnilega ekki út úr bænum heldur ætlum við ósmeik að nýta okkur myndbandstæki saklausra ættingja og sjónvarpstæki þeirra til að geta glápt á Italiensk for begyndere, The Cider House Rules og Malena. Núna erum við á leiðinni upp í Gerðuberg og Foldasafn til að ná í Elling og, auðvitað, eina frábæra Woody Allen mynd - Manhattan Murder Mystery.
Góða helgi góðir hálsar :)