Í gær hélt Pétur afi upp á afmælið sitt, reyndar mingluðum við mamma okkur inn í dæmið svo hægt væri að kalla þetta 150 ára afmæli. Þegar veislan var komin vel af stað, fólk farið að borða og svoleiðis skaut upp kollinum umræða um muninn á veislu og partýi. Þar sem ég veit allt um svo marga hluti varð ég að skilgreina muninn einhvern veginn.
Skilgreiningin var eitthvað um að í partýi væri dansað upp á borðum en samkvæmt þeirri skilgreiningu eru mjög fá partý haldin. Í þessum gleðskap dansaði enginn upp á borði en þó breyttist hin frábæra veisla í þrusupartý. Það bara gerðist einhvern veginn, allt í einu voru allir í partýstuði og komin allt önnur stemning á svæðið. Reglan er því sú að þegar fólk er statt á réttum stað og er í partýstuði þá er partý og besservisserskilgreiningin mín sökkar. Það er nú ekki flóknara.
Það sem gerði þessa veislu svo sérdeilis vel heppnaða var hve mikið af skemmtilegu fólki, sem hittist allt of sjaldan, var samankomið. Eftir partýið setti stór hluti gestanna stefnuna á Thorvaldsen bar og djammaði þar fram á rauða nótt. Við Ásdís splittuðum að vísu aðeins fyrr enda reynir maður að vera skynsamur í samræmi við háan aldur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli