föstudagur, 26. ágúst 2005

Útskrift og "froskabúrið" hreinsað

Þá er ég búin að útskrifast úr dönskunámskeiðinu og fékk þetta fína plagg því til sönnunar. Á því segir m.a. að Ásdis Maria Elfarsdôttir (skemmtileg stafsetning) hafi sótt "intensive language instruction course in Danish focussing on oral expression and listening comprehension and has successfully passed the final examination."

Við þau ykkar sem hafa hug á því að fara í skiptinám við KU mæli ég eindregið með þessu dönskunámskeiði. Kennslan er frábær og skilar virkilegum árangri, einkum er kemur að tal- og hlustunarþjálfun.

Seinna um daginn fórum við síðan að kíkja á Stellu og Kristján og nýju íbúðina þeirra. Þau höfðu beðið okkur um aðstoð við þrif á íbúðinni og þegar við komum á staðinn skildum við af hverju: íbúðin er risastór! Hún var þó ekki nándarnærri eins skítug og við höfðum gert okkur í hugarlund og því sóttist okkur fjórum verkið vel.

Þau buðu okkur síðan upp á dýrindis flatböku fyrir vel unnin störf og síðan var skrafað fram eftir kvöldi. Einstaklega skemmtilegt kvöld og til hamingju með nýju íbúðina Stella og Kristján, hún er virkilega skemmtileg.


Hér er flatbakan góða.

Engin ummæli: