Í dag hjóluðum við í dýragarðinn. Þegar þangað var komið sáum við að verð á árskorti samsvaraði þremur heimsóknum í garðinn. Við rukum því til og keyptum okkur sitthvort árskortið og heimsóttum nokkur dýr. Garðurinn er stór og við vorum sein á ferð þannig að við náðum ekki að skoða hann allan en það er allt í lagi, við eigum árskort.
Garðurinn hentar til fleiri hluta en að skoða bavíana, tígrisdýr, fíla og ferðamenn því þarna er kjörið að spássera í rólegheitunum og fá sér t.d. ís með árskortshafaafslætti. Við nýttum okkur þetta heita tilboð að sjálfsögðu og keyptum að auki dýrindis popp sem síðar reynist sannkallaður penguin-magnet.
Eftir þessa ævintýralegu ferð í dýragarðinn gengum við um Frederiksberg Have og fundum þar einhvers konar snuddutré. Hvað er nú það? Jú, það er tré sem foreldrar nota til að fá krakka til að hætta að nota snuddur. En hvernig fær tré barn til að hætta að nota snuddu? Börnin gefa trénu snudduna svo tréð geti gefið þær börnum sem þurfa á þeim að halda.
Af þessu má læra að foreldrum finnst eðlilega þægilegra að ljúga að börnunum sínum heldur en að segja að þau séu orðin stór og að snuddan skuli í ruslið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli