miðvikudagur, 19. október 2005

Róm

Við vorum snemma á fótum í morgun enda planið að kíkja í borgina eilífu. Til að komast í borgina þurftum við fyrst að ganga rösklega í tæpan hálftíma niður í miðbæ til að ná strætónum sem gengur aðeins einu sinni á klukkutíma í bæinn Monte San Biagio. Þaðan tókum við síðan lestina að Róm, Termini. Lestarferðin tekur rúmlega klukkustund og þann tíma notuðum við til að skipuleggja tíma okkar í Róm. Þegar við stigum af lestinni á aðalstöð Rómar örkuðum við beint yfir í metróið og tókum næsta vagn að Kólosseum.

Þegar þangað var komið vorum við sem tvær flugur fastar í neti kóngulóar - kóngulóar sem sérhæfir sig í að lokka og plata saklausa ferðamenn eins og okkur. Við lentum sem sagt í mörgum ferðamannaveiðimönnum sem vildu endilega að við keyptum okkur leiðsögutúr um hringleikahúsið. Þeir töldu okkur meira að segja trú um að röðin inn í Kólosseum væri a.m.k. 45 mínútna löng. Við gátum nú ekki annað en hlegið að því þegar við vorum komin inn 20 mínútum seinna.

Kólosseum er stórvirki og ég hafði einstaklega gaman af því að skoða mig um í þessum fornminjum. Í för með okkur var Rómarbókin góða sem gerði alla leiðsögumenn óþarfa. Ég hálfvorkenndi þeim sem keypt höfðu sér slíkan túr og þurftu síðan að elta regnhlífuhaldandi leiðsögumanninn eins og leikskólabörn og voru að engu leyti í betri aðstöðu en hver annar til að heyra hvaða fróðleik leiðsögumaðurinn dældi úr sér. Við gáfum okkur dágóðan tíma í hringleikahúsið og skoðuðum hvern krók og kima.

Þaðan tókum við síðan metróið að Vatíkaninu og skoðuðum Péturskirkjuna. Þar byrjaði að rigna svo mikið að við ákváðum að bíða úrhellið af okkur niðrí metróinu. Eftir tíu langar mínútur hafði ekki stytt upp svo við bitum á jaxlinn og óðum okkar leið að kirkjunni. Þar biðum við einhvern hálftíma í röð og skiptumst á að halda á bleiku regnhlífinni minni sem ég svo heppilega hafði pakkaði niður, grunlaus með öllu að við myndum þurfa að nota hana.

Toppurinn í Péturskirkju var eflaust þegar við settumst ásamt öðrum á kirkjubekk og virtum fyrir okkur innviði kirkjunnar. Þegar við höfðu séð fylli okkar risum við upp til að halda för okkar áfram nema hvað þá byrjaði karlakór að drynja á latínu og allur söfnuðurinn reis á fætur. Við vorum allt í einu orðin hluti af söfnuðinum og föst í kaþólskri messu! Þetta var mjög skondið en líka pínu skelfilegt, það varð allt svo yfirgengilega hátíðlegt. Eftir korter af latínusöng, signingum og þvæli upp og niður á bekkina læddumst við út og létu þetta gott heita af Péturskirkjunni.

Þegar þarna var komið sögu var farið að síga á seinni hluta borgarferðar okkar. Við vorum í raun eins og Öskubuska að því leyti að við máttum bara vera í borginni til tæplega átta um kvöldið svo við myndum ekki missa af seinustu lestinni til Monte San Biagio. Á þeim stutta tíma sem við höfðum umráðu náðum við að kaupa pizzusneiðar eftir vigt, kíkja á Spænsku tröppurnar og kaupa okkur ís rétt við Fontana di Trevi án þess þó að sjá gosbrunninn sjálfan.

Ferðin endaði síðan í hlaupum um Termini til að átta okkur á því frá hvaða spori okkar lest færi. Það reddaðist allt og nú sitjum við og jöpplum á þessari nýju lífsreynslu. Róm orkar á okkur sem yndisleg borg og ég hlakka svo til að heimsækja hana aftur.

Engin ummæli: