Í tilefni dagsins langar mig að doka við, hugsa um liðna tíð og verma mér á góðum minningum. Þennan dag fyrir þremur árum vorum við Ásdís ásamt fullt af góðu fólki í hörkupartíi á Skuggabarnum. Allir voru þarna samankomnir til að fagna stórafmæli frábærrar konu.
Veislan fór vel fram og var heldur betur líf í tuskunum, mikið hlegið og mikið kjaftað. Margt var rifjað upp og mátti glögglega sjá að góð manneskja eignast marga vini á 75 árum. Ræður voru haldnar og meira að segja samið lag í tilefni dagsins og frumflutt á staðnum. Þegar veislan var búin hélt svo hver í sína átt með bros á vör.
Afmælisbarnið er Stella Sigurleifsdóttir og var hún amma mín. Það er ekki annað hægt en að hlýna um hjartarætur þegar maður vermir sér á öllum minningunum og vera þakklátur fyrir allt saman.
1 ummæli:
Ég var nú ekki í afmælinu en það leyndi sér ekki á myndum sem þar voru teknar að þar var gaman.
Skrifa ummæli