föstudagur, 19. maí 2006

Silvía Nótt & söngvakeppnin

Ég fylgdist með Eurovision undankeppninni í gær og hafði mjög gaman af. Ég hafði notað kvöldið áður í að kynna mér lögin sem voru í keppninni og ekki fundið eitt einasta sem mér leist vel á. Það kom mér því skemmtilega á óvart að mörg laganna voru alveg ágæt við aðra hlustun. Ekki síst fannst mér skemmtileg sviðsframkoma hjálpa mörgum atriðanna.

Talandi um skemmtilega sviðsframkomu, mér fannst íslenska aðriðið ææææði! Yfirdrifið, ofpoppað, búningarnir, leikmunirnir, dansinn... gaman, gaman, gaman. Og rúsínan í pylsuendanum var að sjálfsögðu að það var púað og við komumst ekki áfram í úrslit. Jibbí!

Leyfið mér að útskýra þessi viðbrögð mína aðeins betur. Ég las í Morgunblaðinu um daginn viðtal við Gauk Úlfsson, annan skapara Silvíu Nætur og skildi þá mun betur hugmyndina að baki persónunni. Hann segir í þessu viðtali að Silvía sé "alveg ofurseld efnishyggjunni, peningum, frægð og útlitsdýrkun" og að hún sé einskonar anti-kristur. Til að útskýra heimspekina á bak við Silvíu segir hann:

"Í fyrri þáttaröðinni voru flestir þættirnir dæmisögur. Flestir þættirnir byrjuðu á gífurlegum yfirlýsingum hennar um einhver markmið sem hún ætlaði sér að ná en sem enduðu öll með einhverjum ógurlegum niðurlægingum Silvíu. Hennar hugmyndir um hamingju eru að ná í tiltekinn strák, eignast ákveðinn bíl eða fá samning við þetta og hitt fyrirtækið. Hún eltir hamingjuna í þessum hlutum og dæmisögurnar ganga útá það að lífshamingjuna er að sjálfsögu ekki að finna á þessum stöðum".

Silvía Nótt er sem sagt ádeila á grunnhyggni, yfirborðsmennsku og tillitsleysi sem þeim Gauki og Ágústu Evu finnst of ríkjandi í okkar nútímasamfélagi. Með því að spegla sig í Silvíu lærir fólk að meta góða mannasiði og virðingu fyrir öðrum. Hún er því ekki að neinu leyti hentug fyrirmynd því hennar hegðun er ekki til þess fallin að hjálpa einum né neinum á lífsbrautinni.

Með því að komast ekki upp úr undanúrslitunum, þrátt fyrir miklar yfirlýsingar frá Silvíu, lít ég svo á að tilganginum hafi verið náð. Silvía hefði að mínu viti alls ekki mátt vinna, það hefði borið vitni um hrakandi siðferðiskennd Eurovisionáhorfenda.

Ef þetta er ekki huggun harmi gegn má líka líta á þetta svona: Af 23 lögum komust 10 áfram, það má því segja sem svo að þetta sé allt í lagi því fæst lögin hafi komist áfram.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sylvía var náttúrlega langflottust! Og hún er engin fyrirmynd um hvernig maður eigi að vera heldur einmitt hvernig maður á ekki að vera.

Þess vegna er óskiljanlegt að foreldrar úti í bæ hafi verið brjálaðir af því Sylvía sendi staðgengla til að gefa börnum eiginhandaráritanir. Djí, þessir foreldrar :-)

Elín sagði...

Silvía var langflottust.Bretarnir urðu fegnir að hún komst ekki áfram,því þá gæti hún ekki eyðilagt aðalkeppnina. Ég varð ánægð með að finnarnir komust áfram,því persónulega fannst mér það besta lagið.

photodenow sagði...

je trouve que vous formez un couple tres beau

ásdís maría sagði...

Já, segi það með þér Stella, foreldrarnir ekki alveg með á nótunum þarna á Esso stöðinni.

Ég hefði haft gaman af því ef Silvía hefði komist upp úr undankeppninni og áfram í þá aðal, bara til að sjá hvað hún hefði gert, en ég var líka alveg sátt við þetta. Svo finnst mér nú alveg frábært að blessaðir Finnarnir hafi loksins náð að sigra keppnina og það með einhverjum vinarlegum skrímslum!

Je vous remercie, c'est gentil de dire ça, même si je vous connais pas :0)