Við kíktum til Mysore í gær með félögum okkar úr Robertson House, Frakkanum Valery og Kínverjanum Shockey. Mysore (eða Mysuru frá því í nóvember í fyrra) er næststærsta borg Karnataka fylkis og er þekkt fyrir sandviðarreykelsi sem seld eru á markaðnum, hallir og Chamundi hæðina.
Þrátt fyrir að Mysore sé aðeins í 160 km fjarlægð frá Bangalore tók það hraðrútuna tæpa fjóra tíma að koma okkur á milli. Og þrátt fyrir að vera svokölluð non-stop rúta voru stoppin allavegana fimm.
Þegar við komum til Mysore byrjuðum við á því að ganga um markaðinn. Um er að ræða sölubása sem umluktir eru steinbyggðum verslunum og er markaðurinn yfirbyggður á sumum svæðum en þó oftast aðeins með plastdúkum, strigum, bambusmottum eða bómullarklæðum.
Á markaðnum kenndi ýmissa grasa. Á einum stað var ferskt grænmeti til sölu og kúfullar körfur af ferskum, grænum chilli, hvítkáli, blómkáli, tómötum og papríku báru þess merki. Þá hafði gulrótum, kartöflum, tómötum, eggaldini, gúrkum og ertum verið raðað snyrtilega á jörðina og upp við veggi, og stoðir stóðu strigapokar fullir af þurrkaðum, rauðum chilli, ferskum kóríanderfræjum og engifer. Á öðrum stað voru körfurnar fullar af blómum og í básunum unnu menn að því að koma blómum í hina ýmsustu kransa. Enn annars staðar voru það reykelsi, ilmolíur og litir sem glöddu nef og auga.
Skemmtilegast var án efa þegar okkur var boðið af litlum gutta inn fyrir einn básinn til að sjá hvernig reykelsi eru gerð. Á meðan fengum við kynningu frá eldri frænda hans á ilmolíum sem við féllum fyrir og vorum í kjölfarið beðin um að skrifa í gestabók. Eigandinn var með stílabækur merktar ýmsum löndum en engin stílabók var fyrir Ísland svo við kvittuðum fyrir okkur í Finnlandsbókina (hver á Finnlandsbók?!). Við keyptum líka tandoori krydd og sérstaka Mysore karríblöndu og verða kryddin send til Íslands og Spánar hið fyrsta.
Frá markaðnum héldum við upp á Chamundi hæð. Á leiðinni upp var frábært útsýnið úr vagninum yfir sléttur Mysore og sáum við glitta í hina frægu Maharasa höll. Á hæðinni er síðan að finna hindúa hof helgað gyðjunni Chamundeshwari og þar inni er að finna styttu af henni úr skíragulli. Mér fannst hins vegar miklu skemmtilegra að kíta um verð um póstkortum við lítinn snáða og fylgjast með öpunum stela eplahýðinu hans Baldurs, virða fyrir mér fólkið sem hafði rakað af sér allt hárið og fórnað því til gyðjunnar og bera það saman við þá sem létu sér nægja að smalla kókoshnetu á þar til gerða steinhellu. Svo var ekki síðra að sjá hindúa prestin blessa splunkunýja Hondu.
Um kvöldið vorum við fyrir utan Maharasah höllina á slaginu sjö, þá er nefnilega kveikt á fimm þúsund ljósaperaseríunni sem umlykur höllina. Fyrir utan höllina var síðan lúðrasveit hersins að spila og kennari frá nágrenni Mysore útskýrði fyrir okkur að þennan eina dag ársins væri Maharajann í höllinni. Við enduðum síðan á því að fara út að borða á veitingastaðnum Park Lane og í tilefni kínverska nýársins pöntuðum við okkur vorrúllur, hvítlaukskartöflur og Shanghai hrísgrjón og óskuðum Shockey gleðilegs nýs árs á mandarín: Xin nian yu kuai!
Myndir frá Mysore eru hér, endilega kíkið.
4 ummæli:
Hvað eru þessir litríku píramídar?
En hvað þetta hljómar allt spennandi sem þið eruð að gera og sjá.
Vá! ekkert smá flottar myndir. Ótrúlegur markaður. Held ég sé búin að átta mig á því hvað þessir litríku píramídar eru. Eru þeir kannski til að búa til punktinn á ennið?
Einmitt! Thu hittir naglann a hofudid. Indverjar eru odir thegar kemur ad thessum punktum og strikum sem settir eru milli augnanna, vid erum buin ad fa ofa rauda depla a thann stad sjalf :0)
Thessir hringir eda deplar kallast tika a konum og tilaka a korlum, samkvaemt Wikipediu.
Skrifa ummæli