Stundum hefur það komið fyrir á þessu ferðalagi að ég hef fengið alveg upp í háls af Indlandi. Þetta átti sérstaklega við í Rajasthan þegar við ferðuðumst hvað mest á hve stystum tíma, í hve mestum hita og ryki.
Það sem hjálpaði mér mikið þegar út af bar var að hugsa til alls þess sem ég hlakka til. Fyrir utan að hlakka til að koma heim og hitta fólkið mitt eru það listirnar sem halda mér gangandi. Ég ætla að gefa ykkur örfá dæmi um spennandi tíma framundan.
Nú er Tori Amos að gefa út nýja plötu, American Doll Posse, og sveitin Arcade Fire (sem froskar kynntu okkur fyrir) er nýbúin að gefa út plötuna Neon Bible. Ég hlakka ekkert smá til að koma höndum yfir þessa tónlist.
Af bókum bíð ég spennt eftir nýjust bók Khaled Hosseinis, höfundar Flugdrekahlauparans. Þegar ég var við það að klára að því er ég taldi nýjustu bókina úr Kvenspæjaraseríunni komst ég að því að enn nýrri bók kom út núna í apríl, The Good Husband of Zebra Drive. Ó, hvað ég get ekki beðið. Núnú, í sumar kemur síðan út síðasta bókin um Harry Potter. Hversu ljúft er lífið eiginlega?
Svo má ekki gleyma þeim listamönnum sem eru líklegir til að gefa eitthvað nýtt út á næstunni: Yann Tiersen, Katie Melua, Audrey Niffenegger, Diane Setterfield. Og þetta er bara brotabrot því ég minnist ekki einu orði á öll listaverkin sem þegar eru til og ég hef en ekki kynnt mér.
Smá svona áminning og lífið er aftur orðið frábærlega fallegt og spennandi. Ég er kannski ekki komin með nýjustu Tori Amos plötuna í hendurnar eða byrjuð að lesa síðustu Harry Potter en það er einmitt málið, ég hlakka svo til, og tilhlökkun er allra meina bót – sérstaklega þegar maður er í ofhlaðinni rútu í sumarhita Indlands :o)
2 ummæli:
Ég get svo sannarlega mælt með Neonbiblíunni, stórkostleg plata!
Takk fyrir að benda mér á Tori Amos. Þið kynntuð okkur einmitt fyrir henni haustið 2005 og ég hlustaði mikið á hana þegar ÁE var nýfædd. Platan minnir mig alltaf á það :-)
Já, segi það með þér, Tori Amos minnir ótrúlega mikið á Köben, við vorum einmitt alltaf að hlusta á hana rétt fyrir fæðingu Áslaugar Eddu og bara við það að hlusta á hana ferðast ég aftur til haustsins 2005.
Og hvort við Baldur höfum ekki verið að hlusta á plötuna þegar við útbjuggum Síðustu kvöldmáltíðina, sem þýðir bara að Áslaug Edda og The Beekeeper eru tengdar órjúfanlegum böndum.
Ég hlakka til að sjá hvað henni finnst sjálfri um plötuna þegar hún verður orðin eldri :o)
Skrifa ummæli