Við eyddum í dag sjö klukkustundum í kjaftagang, sem, ef ég reikna það rétt út, samsvarar nær heilum vinnudegi.
Í gærkvöldi hittum við nágranna okkar sem svalir okkar liggja að, þau Nicolas og Sörujean frá Minneapolis í Minnesota. Við vorum öll að koma heim úr bíó af myndinni Babel og tókum spjall saman. En þar sem klukkan var margt og allir sybbnir teygðist ekki mikið úr því. Í morgun var hins vegar annað upp á teninginn. Það kom í ljós að Nicolas og Sarajean eru einstaklega opin og ræðin og höfðu frá mörgu áhugaverðu að segja. Það segir sig eiginlega sjálft að þau hafi verið ræðin fyrst við spjölluðum við þau í fimm tíma.
Þegar þau urðu frá að hverfa snerum við okkur að nágrannanum á svölunum hægra megin við okkur, en sá hafði komið út á svalir með bók meðan við vorum öll í hrókasamræðum og heilsað upp á okkur. Það kom í ljós að hann er Neil frá London, hingað kominn til að klifra í fjöllunum og kafa í höfunum. Stuttu síðar bættist vinkona hans Emily frá West Virginia í hópinn, en hún hefur verið að vinna á sjúkrahúsi í Suður Indlandi.
Við enduðum á því að kíkja öll fjögur á tíbetska staðinn Gakyi þar sem þjónarnir eru svo alúðlegir og madamman svo rösk og töff (maturinn líka vel ætur). Við héldum að sjálfsögðu áfram að kjafta við matborðið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli