Nú erum við búin að vera fimm daga í fjallabænum McLeod Ganj og okkur liggur ekkert á héðan. Í fyrsta skipti í marga mánuði er hitinn aldrei þrúgandi eða rakinn þreytandi, einfaldlega af því að hér er enginn hiti og raki. Reyndar veit ég fyrir víst að Íslendingar þægu með þökkum það sem ég kalla “engan hita”!
Fyrir utan loftslagið er, eins og ég hef áður minnst á, andrúmsloftið svo þægilegt. Ólíkt því sem maður á að venjast í indverskum bæjum og borgum er nánast ekkert um að fólk stari á mann, þeir fáu sem stunda það eru að sjálfsögðu Indverjar. Tíbetarnir eru bara þægilegri í umgengni, svo einfalt er það. Svo skemmir ekki að þeir elda öðruvísi mat en Indverjar; við erum búin að njóta þess að smakka momos með sojasósu, tíbeskar flatnúðlur og tíbeskt brauð sem er eins og risastór beygla, kemur mjög vel út með hnetusmjöri :o)
Svo spillir það ekki stemmningunni að heyra fólk sem maður mætir út á götu fara með möntrur og handfjatla bænaböndin sín eða heyra í munkunum kyrja og óminn sem kemur þegar þeir slá í stóru, flötu plötuna. Eða horfa á fólk sem snýr bænahjólunum til að senda bænir út í allar áttir eða horfa á marglitu, tíbetsku bænaflöggin bærast í vindunum og metta hann af om mani padme hum. Eða sjá að konur njóta virðingar og sjálfstæðis.
Návist ferðamannanna fer heldur ekki framhjá manni, þeir eru út um allt. Og þeir eru greinilega margir hverjir hingað komnir til að framkvæma. Upp um alla veggi eru auglýsingaspjöld sem gefa til kynna hversu mergjað úrvalið af ýmiskonar þjónustu er hér í boði: lærðu hindí, lærðu tíbetsku, lærðu á tabla, mættu í yogatíma (hatha og ashtanga), láttu lesa í lófann þinn, stundaðu t’ai chi, leyfðu okkur að búa til stjörnukort handa þér, lærðu thai yoga nudd, reiki eða tíbetska matreiðslu. Þá er líka hægt að fara í fríar kennslustundir um dharma sem búddamunkar hér á bæ standa fyrir.
Langi mann lítið til að læra er alltaf hægt að versla og hér er af nógu að taka: útivistafatnaður, Ganesh, Krishna og Búdda styttur, yoga mottur, reykelsi, talnabönd og bænabjöllur, bakku (tíbetskur kvenfatnaður), thangka málverk, prjónaðar húfur og vettlingar, pils, bolir og súkkulaði. Að sjálfsögðu eru bókabúðirnar í mestu uppáhaldi hjá okkur og ef þið eruð að leita að okkur kíkið þá í búðina á móti Chocolate Log ;)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli