föstudagur, 22. júní 2007

Haltu mér, slepptu mér Bangkok!

Ó, við erum að fara frá Bangkok í eftirmiðdaginn!

Og ég vil ekki fara!

En það er næstum alltaf svona, ég er spennt fyrir næsta áfangastað og pínu taugastrekkt en vil þó ekki kveðja allt sem ég er búin að venjast. Og það er svo auðvelt að venjast lífinu í Bangkok, þess vegna er öfgaerfitt að segja bless.

En hvað er ég að kvarta, áður en ég veit af verðum við komin hingað aftur, við eigum nefnilega stefnumót hér í lok júlímánaðar. Og þá get ég aftur fengið mér ferskan papaya og sætan mangó í morgunmat, keypt mér grillmat með sætri chilisósu upp úr miðnætti, virt fyrir mér flottu, retró vespurnar sem allir keyra um hér á bæ og ferðast um með leigurum sem yfirleitt eru til í að nota mælinn svo maður sleppur við allt prútt um verð fyrir ferð.

Þetta er einhverskonar haltu mér-slepptu mér samband því á sama tíma og ég græt yfir því að kveðja Bangkok er ég spennt að heimsækja nýtt land, heyra nýtt tungumál, prufa annarskonar mat og drykk, sjá nýjar borgir og grænar sveitir. Og þess vegna erum við á förum, rekin áfram af furðulegri ferðahvöt og þeirri staðreynd að verki okkar hér í borg er lokið, þ.e. að verða okkur úti um vegabréfsáritun.

Í kvöld verðum við komin til höfuðborgar Víetnam, Hanoi. Við erum að leggja þá heimsókn á okkur bara til þess eins að geta verið óþolandi í öllum pinnaboðum, héðan í frá ætlum við nefnilega að byrja allar sögur á "When I was in Nam"...

P.s. Myndir frá Borg borganna eru komnar á netið, skoða, kíkja, skoða!

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæl
Ég rakst á síðuna ykkar í gær þegar ég var að gúggla suður Indland en við fjölskyldan erum að fara þangað eftir mánuð. Ef þið viljið deila með okkur góðum gististöðum eða ævintýralegum stöðum er það mjög vel þegið gudrunhj hjá ruv.is Við heilluðumst af Indlandi fyrir 8 árum síðan þegar við fórum til Rajastan og hlökkum til að kíkja á suðrið. Bið að heilsa Hanoi. Víetnam er ævintýralegt land sem ykkur mun finnast uber hreint eftir Indland. hlakka til að fylgjast með ævintýrum ykkar í framtíðinni

ásdís maría sagði...

Það er óhætt að segja að Víetnam sé hreint miðað við Indland og að mörgu leyti þægilegra.

Annars erum við hissa á hve margt er líkt með Indverjum og Víetnömum. Við ofdekruðumst aðeins í Bangkok held ég og erum fyrst núna að fatta að við erum enn á bakpokaferðalagi og höfum þurft að draga fram ákveðnina og hæfileikann til að hlusta ekki á köll sölumanna og cyclo manna :o)