sunnudagur, 10. júní 2007

Skítapleis

Það á ekki af okkur að ganga. Fyrst fær Baldur hita og er rúmliggjandi, loks þegar hann hressist kvefast ég, fæ því næst beinverki og hita og verð að halda mig innandyra. Út af öllum þessum veikindum höfum við séð miklum minna af Kathmandu en við höfðum gert okkur í hugarlund og miklu meira af Simpsons, Seinfeld og Grey’s Anatomy.

En það er svo sem ekki staðnum að kenna að við veiktumst svo ég er ekki að vísa í það þegar ég tala um skítapleis. Kathmandu er nefnilega merkilega skemmtileg, lítil og krúttleg borg og augljóslega ólík indverskum borgum. Svo lengi sem litið er framhjá kvöldinu í kvöld.

Þar sem ég var orðin sprækari af hita og pest fórum við út úr húsi til að finna okkur eitthvað í gogginn og glugga í bækur og búðarglugga. Bókabúðin Barnes & Nobel var svo óheppin að missa viðskipti okkar í kvöld, fyrir framan hana hafði flætt upp skólp og ef lyktin var viðbjóðsleg getið þið ímyndað ykkur hve skemmtileg aðkoman var. Sem sagt skítapleis í bókstaflegri merkingu.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er nú alveg til að drepa exótíkina að heyra um haribo barnes&nobles og Gray's Anatomy.
En það er greinilegt að ég er orðin eitthvað sködduð af vinnu við fráveitumál Íslendinga því ég hefði helst viljað fá mynd með þessari færslu ;Þ

Kveðja Fjóla

ásdís maría sagði...

Já, ég myndi segja að þú værir í slæmum málum ef mynd af skólpi hefði glatt hjarta þitt :o)

Til að bjarga ímynd Nepal og hjálpa þeim í markaðsetningu sinni sem framandi áfangastaður þá er Barnes & Nobel bókabúðin algjört feik og eitthvað af Northface útivistarfatnaðinum líka. Haribo lakkrísinn var sem betur fer ekta!