sunnudagur, 5. mars 2006

Vatn

Ég hata strumpa!

Það er reyndar ekki allskostar rétt en nú vitið þið þó hver tónninn í næstu setningu á að hljóma. Ég hata hitaveitu Kaupmannahafnarborgar! Hitaveitu sem aldrei hitar eitt né neitt - allavega drífur það ekki hingað í nordvest, hvað þá upp á þriðju hæð.

Aldrei hefði ég trúað að ég ætti eftir að skrifa færslu um vatn en nú stendur svo á. Þannig er að vatn er fyrirbæri sem hefur leitað á huga minn síðan við fluttum hingað út - jafnvel lengur því ég var byrjuð að hafa áhyggjur af vatninu áður en við fluttum úr. Ég hafði til að mynda lesið að fyrir Íslendingum bragðaðist vatnið í Kaupmannahöfn sem sundlaugarvatn svo ég var ekkert of spennt. Þegar á hólminn var komið reyndist vatnið vel drykkjarhæft en það tók mig dágóðan tíma að venjast bragðinu og áferðinni sem starfar af kalkmagninu í vatninu.

Svo þeim áhyggju af vatni var lokið en raunum mínum tengdum vatni var langt frá því að vera lokið. Til að mynda er vatnið úr krananum aldrei nógu kalt þegar maður vill fá sér vatnsglas og það er aldrei nógu heitt þegar maður ætlar í uppvaskið. Þá ergir kalkið mig oft ansi mikið því það sest á all og reglulega þurfum við að vaska upp vatnskönnuna okkar því hún verður hvít af óhreinindum.

Verst finnst mér þó að hafa hvergi aðgang að miklu flæmi af vatni, vatni sem hægt er að stinga sér út í án þess að taka andköf af kulda, vatni sem er svo heitt að aumir vöðvar endurnýjast. Ég sakna óneitanlega sundlauganna og heitu pottanna að heiman en neita þó staðfesta því að þjást af heimþrá, til þess er ég of sátt í Danaveldi.

Engin ummæli: