sunnudagur, 30. september 2007

Ólögleg á morgun

Við ætluðum að kveðja Tæland í dag og taka rútuna yfir til Laos. Ekki seinna vænna enda rennur vegabréfsáritunin okkar út í dag. Hins vegar veiktist elsku Baldur í nótt, undir morgun hríðskalf hann af kulda og fyrir hádegi var hann kominn með hita. Við frestuðum að sjálfsögðu ferðinni til Laos en það þýðir bara eitt: Á morgun verðum við ólögleg í landinu.

Ég hef heyrt misjafnar sögur af því hvernig tekið er á ferðamönnum sem dvelja framyfir heimilaðan tíma í Tælandi, en Lonely Planet bókin okkar varar við því og segir dæmi vera um að ferðlangar hafi verið handteknir og sendir heim með fyrsta flugi. Þetta hljómar ansi dramatískt og ég efast stórlega um að við lendum í vandræðum. Panadda sagði að dagsektir væru innheimtar á landamærunum, vonum að þeir láti þá refsingu duga!

Baldur er sem betur fer frískari núna og vonandi verður hann ferðafær á morgun. Mig langar ekki að verða ólöglegur innflytjandi í miðju bakpokaferðalagi, það passar bara ekki.

Engin ummæli: