Í fréttum er það helst að við sluppum frá Tælandi og komumst í örugga höfn í Laos. Í gærmorgun var Baldur orðinn sprækur sem lækur svo við kýldum á Laosferðina. Við tókum rútu frá Chiang Mai yfir til landamærabæjarins Chiang Khong og þótt vegalengdin sé ekki mikil og ástand vega gott, tók ferðin drjúga stund. Við höfðum upphaflega keypt pakkaferð með öllu inniföldu (rútuferð, hótel og bátsferð niður Mekong allt að Luang Prabang), en á þeim forsendum að farið væri yfir landamærin samdægurs. Það kom hins vegar í ljós að því var búið að breyta og ætlunin var að gista Tælandsmegin og fara yfir landamærin daginn eftir.
Við vorum mætt í landamærabæinn upp úr fjögur þennan eftirmiðdag og samferðafólk okkar tók að týnast inn á herbergin sín. Við ákváðum hins vegar að fara yfir landamærin þennan sama dag og gista frekar Laos megin, það kom nefnilega ekki til greina að vera einn auka ólöglegan dag í landinu.
Okkur til mikils létti gekk allt vel á landamærunum Tælandsmegin, við greiddum sitthvora dagsektina og héldum svo út í langbát sem ferjaði okkur yfir Mekong. Fram til þessa höfðum við keyrt, haltrað og runnið á teinum yfir landamæri en þetta var í fyrsta sinn sem við sigldum yfir landamæri. Á hinum bakka Mekong fengum við stimpil í vegabréfið og þar með var það komið: við vorum í Laos.
Næsta dag hófst síðan sjö tíma bátsferð niður Mekong ána. Við völdum að fara með svokölluðum spíttbát og fannst tilhugsunin um sjö tíma í speedboat betri en tveir dagar á slowboat. Spíttbáturinn bar nafn með renntu, eintrjáningur og fyrir vikið lítill og nettur, með stórri Toyota bílvél afturí, frammí voru hjálmar fyrir farþega. Ekki var reiknað með neinu rými fyrir fætur svo þá urðum við að hafa upp við bringspalir.
Svo hófst ferðin: fyrst var spítt í lófana, svo var spíttað áfram. Fyrstu augnablikin vorum við frosin í framan, ég hefði aldrei getað ímyndað mér að báturinn færi svona hratt. Við urðum að halda dauðahaldi í derhúfurnar okkar og fengum auðvitað mjólkursýru í handleggina af því. Eftir klukkutíma siglingu þurfti ég ekki lengur að hafa áhyggjur af því, húfan fauk nefnilega af þrátt fyrir viðleitnina og flýtur nú einhversstaðar í makindum sínum á Mekong.
Að undanskildum stöku mýflugnagerum sem við svifum í gegnum og regnskúrum sem við lentum í, gekk ferðin furðuvel. Fyrstu klukkutímana naut maður þess að horfa á grænar hæðirnar, bleiku vatnabuffalana og berrössuð börnin við árbakkann sem veifuðu eins og þau framast gátu. Einnig að finna kinnarnar klesstar upp við eyrun og hárið standa beint aftur eins og á hármódeli. Seinni hluta ferðarinnar var maður farinn að leyfa sér að detta ofan í bók, og þykir mér undrum sæta að það hafi gengið eftir. Stundum var reyndar svolítil áskorun að fletta í blæstrinum en alveg þess virði.
Við lentum svo við fljótandi bambuspramma við sólsetur og þar með var ferðinni lokið. Þaðan tókum við túk-túk út til Luang Prabang með þýsku samferðafólki okkar. Við höfðum fengið að heyra sögur annarra ferðalanga sem höfðu þvælst um Laos og ein var á þá leið að sprungin dekk væru daglegt brauð í Laos. Jæja, það er ekki hægt að segja að þetta hafi verið ýkjur, því eftir korters ferðalag var túk-túkinn kominn útí kant: sprungið. Við komumst þó heilu og höldnu til Luang Prabang og það er fyrir öllu.
Annars verð ég aðeins að minnast á þýska samferðafólkið okkar, sem er án efa óheppnasta fólk sem ég hef fyrir hitt. Í byrjun ferðar tafðist að leggja af stað því þau voru á hlaupum um allan bæinn í leit að veskinu sínu með öllum greiðslukortum og ferðatékkum. Þau fundu hvorki tangur né tetur af því veski og sátu upp með nokkra dollara og kip (Lao gjaldmiðillinn) og eitt greiðslukort til vara. Í bátsferðinni sjálfri var stelpan veik alla leiðina, þau glötuðu regnstakki og myndavélatöskum þegar við skiptum um bát og þegar við svo stigum upp í túk-túkinn uppgötvuðu þau að peningaveskið þeirra, sem þau voru með í höndunum fimm mínútum áður, var horfið. Ástand á bænum, ég segi ekki annað.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli