fimmtudagur, 4. október 2007

Rigningardagur

Luang Prabang: gullfalleg smáborg sem kúrir við Mekong ánna. Hér búa aðeins um 25 þúsund sálir en engu að síður var bærinn, allt fram til daga kommúnistanna, konungleg höfuðborg Laos. Í dag er borgin á heimsminjalista UNESCO og er hún talin vera ein best varðveitta borg Suðaustur Asíu.

Í dag er annar dagur okkar í Luang Prabang og það rignir. Það kemur ekki að svo mikilli sök því hér eru kaffihús á hverju strái sem öll þiggja viðskipti okkar með þökkum. Og við fúlsum ekki við að setjast undir skyggni og komast í skjól undan regninu.

Úr öruggu sæti er síðan afskaplega viðeigandi, verandi í Laos, að fylgjast með búddamunkunum sem eru litríkasti hluti mannlífsins hér í Luang Prabang. Þeir ganga nefnilega um í æpandi appelsínugulum kuflum og með sólhlífar sem breytast í regnhlífar á degi sem þessum. Fólkið á vespunum þýtur framhjá með sambærilegar sólhlífar, margar hverjar með blúndum í kantinum, og svölustu töffarar eru ekki að víla slíkt fyrir sér.

Búddamunkarnir falla vel inn í þetta ótrúlega fallega umhverfi, þar sem allt er ýmist grænt eða gyllt. Hofin eru dýrðleg og litrík og umfram allt lifandi, í þeim fer mikið fræðslustarf fram og ungir búddamunkar, allt niður í smápatta, verja nokkrum mánuðum og upp í nokkur ár í búddahofum.

Ó, hún er falleg hún Asía.

Engin ummæli: