föstudagur, 5. október 2007

Annar í rigningu

Rigning aftur í dag. Ekki að það hafi mikil áhrif á plön okkar, við sitjum á góðum kaffihúsum og lesum. Í stuttu máli sagt höldum við okkur innandyra, eða í það minnsta í vari. Við höfum þurft að taka fram þýsku stríðsstakkana okkar því við eigum bara eina regnhlíf og rúmumst ekki bæði undir henni.

Luang Prabang heldur áfram að vera falleg, ekki spurning. Konurnar, ungar sem aldnar, ganga flestar í síðum pilsum sem eru hluti af hinum ansi glæsilega og hefðbundna Lao klæðnaði. Kannski að ég fái mér eitt svoleiðis fyrir jólin, í þeim tilgangi að sækjast ekki lengur eftir að vera lagleg um jólin heldur Laoleg.

Annars gefur allt þetta tal um rigningu og pilsaþyt ekki alveg rétta mynd af upplifun okkar þessa dagana. Við verjum mestum tíma okkar á netinu, sólgin í nýjar fréttir. Allt bliknar nefnilega í samanburði við nýju frænku sem kom í heiminn á þriðjudaginn var. Við óskum Stellu, Kristjáni og Áslu táslu að sjálfsögðu hjartanleg til hamingju með fjórða froskinn! Við iðum í skinninu eftir að berja hana augum.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Nú er bara að drífa sig til Stokkhólms og skoða froskana.
Glæsilegur árangur hjá þessum Kópavogsbúum sem hafa slasast svona eitthvað út í heim.
Ég vona að þau hafi náð að fá sér froskahús á Ísalandi.
El-Far

Unknown sagði...

Takk fyrir hamingjuóskirnar :-)

Froskarnir hafa fengið froskaíbúð í blokk í Hlíðunum. Þökkum hérmeð kærlega fyrir ráðleggingar í fasteignaviðskiptum, þær komu okkur á rétta braut :-)