laugardagur, 30. maí 2009

Brauð með marmelaði

Langar til að deila með ykkur jákvæðri reynslu minni af marmelaðigerð en eins og sumum er kunnugt er ég marmelaðigrís nokkur. Þrátt fyrir það hef ég aldrei reynt að gera það sjálfur fyrr en nú. Ég átti nokkrar lífrænar appelsínur í ísskápnum og þar sem það er ekki alveg á hverjum degi langaði mig að nýta börkinn til einhvers. Hvað er þá betra en gamaldags marmelaði?

Marmelaðið er c.a. sem hér segir:
4-5 lífrænar appelsínur
2/3-1 bolli agave síróp
1/3 bolli vatn

Skar appelsínurnar í litla báta (c.a helmingi minni en maður borðar) og hakkaði þær svo saman við vatnið í matvinnsluvélinni. Öllu var svo sturtað í pott og agavesírópinu blandað saman við (smekksatriði hve sætt hver vill). Við vægan hita kom svo upp suða og lét malla í rúman hálftíma.

Úr þessari hræru kom svo yndælis appelsínumarmelaði, u.þ.b. ein krukka, sem fór sérdeilis vel á nýbökuðu ofurbrauði frá sjálfum mér :)

miðvikudagur, 27. maí 2009

Yfir og til baka

Eins og einhverjum lesendum er kunnugt hef ég stundað sjósund síðan snemma í vor og þykir mér það mikil heilsulind. Sjóböðin og sundið eru eiginlega bara hápunktur hvers dags, eins og lífsorkan þjóti upp um nokkur stig. Þarna mætir iðulega hópur af góðu fólki og hleður battaeríin saman og gleðin er sannarlega við völd.

Fram til þessa hef ég látið mér duga að synda að bátum sem liggja við festar nálægt miðju Fossvogs og hef svo bætt við túrum meðfram ströndinni þar sem ég hef aukið vegalengdina jafnt og þétt. Í dag var þó brotið blað í persónulegri heimsmetasögu minni því þegar ég dembdi mér í sjóinn hafði ég sett mér markmið að synda yfir í annað bæjarfélag, Kópavog.

Sundið sóttist vel og eftir að hafa spókað mig ásamt Bigga tölvukarli á Gunnarshólma, landfyllingunni á Kársnesi, synti ég aftur í Nauthólsvíkina og endaði túrinn í upphituðu ylstrandarlóninu. Ég get svo svarið að það var eins og að koma í heitasta pottinn í Laugardal, hitinn háfstakk mann. Við hitabreytinguna byrjar líkaminn að bregðast við með skondnum hætti eins og að stífna í kjálkunum og er ákaflega fyndin áskorun að reyna vitsmunaleg samtöl með andlitið strekkt eins og trumbuhúðir.

Svo lá maður náttúrulega bara í pottinum og slakaði sér niður fyrir hjólatúrinn heim. Það er eiginlega einskis virði að verja fleiri orðum í þetta því það veit enginn hvernig þetta er fyrr en reynt hefur á eigin skinni. Yndislegt.

mánudagur, 25. maí 2009

Torta 2009

Við áttum yndislegan Tortudag í gær. Tortudagur dregur nafn sitt af jörðinni Tortu sem er nágranni Geysis og Strokks og meðal virðulegra eigenda hennar er tengdafjölskyldan.

Á Tortudegi er iðulega og ötullega borinn áburður á Tortujörð og göngum við um mosa og lyng með fullar fötur og gula gúmmíhanska og ausum áburði í rofabörð. Að þessu sinni rigndi létt á skógræktarfólk og var ég þakklát fyrir að hafa fjárfest í forláta regngalla síðastliðið haust þegar ég var hvað duglegust að hjóla í vinnuna.

Svo er hefð fyrir því að pikknikka í skjólsælli laut eftir að hafa innt gott verk af hendi. Að þessu sinni vorum við með Salad Niçoise og nýbakaða baguette í nesti sem kom afskaplega vel út í sveitaloftinu. Í ofanálag stytti upp þegar við tylltum okkur niður sem var bara gott.

Punkturinn yfir i-ið var samt að komast í sund í Laugaskarði og baða sig í sólinni sem loks lét sjá sig. Svo er alltaf gaman að henda sér fram af stökkbrettinu og fara í boltaleik, en einmitt það gerðum við Baldur.

föstudagur, 22. maí 2009

Suður með sjó

Í dag tylltum við okkur á tá eins og trendsetterinn Jesús gerði um árið. Við vorum heldur jarðbundnari fyrri partinn en tókum svo flugið með kveldinu. Hálfdönsuðum eiginlega í restina, líklega ekkert nýtt fyrir trendsetternum.

Eftir almenn notalegheit í sólinni heimafyrir skunduðum við íklædd útivistarbúnaði úr bænum og námum hvergi staðar fyrr en við Kleifarvatn. Þar voru spóktaktarnir æfðir og rykmekkir úr áströlskum vegamyndum virtir viðlits úr öruggri fjarlægð við spegilslétt vatnið.

Auk þess að skoða þetta hefðbundna, Krýsuvíkurhverina og Grænavatn, renndum við niður að Krýsuvíkurbjargi. Þvílík fegurð! Í þessu mergjaða sólskini var engu líkt að virða fyrir sér svartfugl, ritu og fýl. Vegurinn niður eftir er torfær með meiru en vel þess virði að fikra sig niður eftir honum fyrir þennan yndislega stað. Það sem svo kórónaði allt saman var útsýnið, víðátta hafsins og stöku fiskiskipskorn við sjónarrönd.

Selatangar voru næsta stopp. Þangað höfðum við reynt að fara áður en misheppnast þar sem olíusían lét lífið er hún steytti á nibbu sem stóð upp úr veginum. Þá vorum við dregin á brott. Núna komumst við alla leið niður á sandinn og festum okkur barasta þar. Enn á ný vorum við dregin frá Selatöngum en að þessu sinni voru það bara nokkrir metrar. Sem betur fer er fjaran þarna full af köðlum og kom sér líka vel að sjóarinn sem dró okkur kunni vel til verka.

Selatangar eru sérstakur staður og ríkir ákveðinn kraftur í þögninni kringum rústirnar og brimrótinu í fjörunni. Þarna leynast ævintýri og sögur í hverjum hól og sér maður þær einhvern veginn fyrir sér. Þegar nærstaddir höfðu fengið nægju sína af fornleifafundum og rekaviðarpælingum tókum við strikið í bæinn, á koldrullugum kagganum, og mættum útitekin, rykug og ilmandi af sól og súrefni í kirtan í Yogashala. Þessi uppstigningardagur var góður uppstigningardagur.

mánudagur, 18. maí 2009

Blessuð blíðan

Síðan á föstudag hefur ekki farið framhjá neinum hér á höfuðborgarsvæðinu að veðrið hefur heldur betur batnað. Úr rokþurrki og eilífðarstreng síðustu viku er komið ekta skandinavískt sumar. Útivist hefur því skipað veigamikinn sess. Ekkert smá sem svona blessun lyftir þjóðinni upp.

Leiðin virðist æ oftar liggja að sólarströnd Reykvíkinga og í dag skellti ég mér í þangað með Bigga vini og eftir sjósund, pott og spjall skildu leiðir. Mætti þá á svæðið Ásdís nokkur María og tjilluðum við samam á ströndinni drjúga stund en hjóluðum svo niður í bæ að kíkja á mannlífið sem reyndist með líflegasta móti.

Eftir að hafa reddað broddmjólk vikunnar í Kolaportinu lá leiðin á Babalú á Skólavörðustíg í krepu og kaffi. Þar frétti ég símleiðis frá afar áreiðanlegri fréttaveitu að húllumhæ væri planað í bænum í tilefni að sigri Íslands í söngvakeppninni í gær.

Þar sem við vorum í bænum skelltum við okkur auðvitaðð í partíið og skemmtum okkur konunglega, Páll Óskar kann sko að koma fólki í stuð. Sólbrún og sæl hjóluðum við svo heim og reiknast mér til að við skötuhjú höfum varið ígildi góðs vinnudags í sól og sumaryl, atvinnutsjokkóar.

mánudagur, 11. maí 2009

Laugardagsleikhús

Á laugardaginn mættum við Ásdís í Borgarleikhúsið og sáum þar Ökutíma. Ég vissi nú ekkert um verkið áður en við fórum annað en að mér líkaði tónlistin. Geisladiskur með músíkinni fylgdi okkur um Vestfirðina í fyrra og bætti smáaukabragði við þá mögnuðu upplifun.

Leikritið þótti mér í alla staði vel heppnað og líkaði frásagnarstíllinn sérdeilis vel. Ég vil alls ekki segja of mikið enda lítið fyrir froðukenndar endur- og umsagnir, mæli bara eindregið með sýningunni.

Langi fólk að lesa skemmtilegar umsagnir um eitthvað þá mæli ég með þessari stuttu umfjöllun um Klintrimús.

þriðjudagur, 5. maí 2009

Þroskamerki?

Þann 26. apríl síðastliðinn varð ég þrítugur og hélt af því tilefni lítið kaffiboð fyrir nánustu ættingja. Þarf vart að fjölyrða um það en hér var glatt á hjalla, nóg að spjalla um daginn eftir kosningar auk þess sem Ásdís hafði galdrað fram sautjánhundruð sortir af hnallþórum, rúllutertum og öðru góðgæti.

Síðan þá hef ég tekið út ansi öran þroska og var einna mest hressandi þegar ofninn í tölvuherberginu brast með og gerði úr því gufubað með sturtu. Ég fann samstundis að þroskinn hrannaðist upp meðan ég tókst á við ástandið með stakri lipurð.

Svo mjög á ég nú af þroska að mér var gjörsamlega ómögulegt að spássera í gegnum Kolaportið í gær án þess að grípa með mér vænan pela af Flóa-broddi. Drakk ég slatta af honum í kvöld með bestu lyst og skellti meira að segja í einn ábrysti með rjóma og kanilsykri. Er ég ekki frá því að hér sé kominn nýr uppáhaldseftirréttur.

Fyrir þau ykkar sem ekki hafa tekið út jafnöran þroska og undirritaður er bent á umfjöllun wikipediu um ábrysti. Fróður maður fræddi mig á því að fyrir vestan væri notuð aðalbláberjasaft eða -sulta í stað kanilsykurs og hygg ég á að reyna það fljótlega.