Ferðalagið frá Íslandi hingað til næststærstu borgar Indlands tók heilan sólarhring, og því vorum við ansi búin á því við komuna hingað. Við byrjuðum á því að fljúga til London snemma morguns, tókum þaðan næturflug til Delhi með Air India og enduðum síðan í Kolkata seinni part næsta dags.
Við tókum leigubíl frá flugvellinum niður í bæ og deildum honum með argentínsku pari sem var á sömu leið. Ég sat í leigubílnum, horfði á mannlífið út um gluggann og var ekki alveg að ná því að vera komin hingað aftur. Þegar ég kvaddi Indland í byrjun júní 2007 fannst mér land og þjóð eiga smá í mér og fannst ómögulegt annað en að ég myndi snúa aftur einn daginn, eiginlega bara skrýtin tilhugsun að koma ekki aftur hingað. Svo kom á daginn að mér fannst enn skrýtnara að snúa aftur.
Við fundum okkur gistingu nálægt Sudder St og höfum unað hag okkar vel síðustu tvo daga. Við erum búin að ná að sofa úr okkur flugþreytuna að mestu og aðlagast nýju tímabelti, en við erum fimm og hálfum tíma á undan Íslandi. Við höfum aðeins gengið um borgina og skoðað okkur um, tekið metróið sem virkar mjög vel, setið á loftkældum kaffihúsum og spásserað um bókabúðir, í reynd tekið lífinu með mikilli ró þessa fyrstu daga. Í gær fórum við reyndar á Howgah lestarstöðina til að verða okkur út um lestarmiða til Digha og það var hálft dagsverk með skriffinnskunni og bið í löngum röðum. Ætlum að reyna að kaupa lestarmiða í gegnum netið héðan í frá :)
Borgin hefur tekið vel á móti okkur og allir hafa verið boðnir og búnir að veita okkur hjálparhönd. Börn eru hvött af foreldrum til að heilsa okkur og aðrir gefa sig á tal við okkur til að forvitnast um okkur og ekki síður til að slípa til enskuna.
Núna erum við á leiðinni til strandbæjar fyrir sunnan Kolkata sem heitir Digha og þar munum við sækja brúðkaup sem mun standa yfir í tvo daga. Meira síðar gott fólk :)
5 ummæli:
Gaman að fylgjast með ykkur, góða skemmtun og gangi ykkur allt í haginn.
Gott að frétta af ykkur, Skotta og Skotti. Farið vel með ykkur en skemmtið ykkur vel.Þið ættuð kannski að gifta ykkur í leiðinni, fyrst þið eruð hvort eð er að fara í brúðkaup. Þið farið svo kannski með í þeirra brúðkaupsferð.
Bestu kveðjur af Klakanum.
El-Far og Hulda
Gaman að geta fylgst með ævintýrum ykkar :) Njótið ykkar úti.
Kveðja frá Svíalandi.
Jæja, þá er ævitýrið byrjað. Vona að allt gangi vel og að þið njótið ykkar í margmenninu.
Nova cafe er ekki svipur að sjón eftir brotthvarf okkar Baldur minn.
Kveðja geiriiiiiiiiiiiiiiiii
Thakka kommentin og kvedjurnar. Okkur thykir vaent um ad vita ad thid lesid og fylgist med.
Ad sjalfsogdu latum vid ykkur vita ef vid giftum okkur.
Asgeir, vitanlega lidur kaffihusid fyrir svo stort skard, vona ad Raggi komist i gegnum tessar threngingar.
Skrifa ummæli