Komin aftur til Kolkata eftir ljúfar stundir í Digha þar sem við vorum til að mæta í brúðkaup góðs vinar. Digha er nokkrar lestar-klukkustundir suðvestur af Kalkútta og er í raun lítið annað en mjög einfalt þorp með tveimur eða þremur lúxushóelum. Hingað kemur miðstéttarfólk úr nágrenninu til að hvíla sig á skarkala borganna og liggja í afslöppun á laugabökkum.
Til að undirbúa okkur almennilega fyrir hátíðahöldin fórum við ásamt nokkrum öðrum gestum og fjárfestum í indverskum spariklæðnaði í fínustu fatabúð þorpsins, ég fór til rakara og Ásdís fékk hennaflúr á hendurnar. Allt saman sérlega þjóðlegt og afskaplega skemmtilegt. Á morgni brúðkaupsins fór Ásdís svo ásamt öðrum kvendýrum hjarðarinnar og lærði að vefja sig sarí, kom svo aftur inná herbergi eins og glitrandi, litrík bollywoodbomba.
Það var semsagt á þeim herrans degi 1. október, nánar tiltekið afmæli Gandhis, sem okkar kæri vinur Valery giftist heitkonu sinni Puspu. Athöfnin fór fram í litlu hofi við hafið. Þetta var látlaust en fallegt. Þarna sat fólk á gólfinu umhverfis altarið (forvitnir þorpsbúar fylgdust grannt með að utan) og hlustaði á helgan mann kyrja möntrur og blessa brúðhjónin og fjölskyldur þeirra með öllum tiltækum ráðum og fjölmargir guðir kallaðir til vitnis: Shiva, Khali, Vishnu, Krishna og svo mætti leeeengi telja. Að kvöldinu var svo haldin veisla á heimili systur brúðarinnar. Kvöldið eftir var svo haldið vestrænt partí uppá hóteli með fjölþjóðlegu diskótjútti í restina.
Einn af hápunktum veru okkar í Digha var tvímælalaust að hitta Gary, sem við kynntumst líka í Bangalore í den, og unnustu hans Judy. Mikill innblástur sem maður fær af því að hitta svo jákvætt og orkumikið fólk, tókum þau meira að segja í jógatíma! Reyndar kynntumst við ofsalega mörgum og skemmtilegum manneskjum og fórum einmitt samferða nokkrum þeirra hingað til Kalkútta aftur. Nú er planið einfaldlega að berja nokkra áhugaverða staði í harðfisk með augunum, góðar stundir.
3 ummæli:
Bara strax kominn inn í aðalinn í Indlandi.Ég hef það á tilfinningunni að það sé lang í næsta Novakaffi. Gangi ykkur vel.
Kv geiriiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiii
Gaman hjá ykkur! Gaman að lesa um ævintýrin á Indlandi... Knús og kveðjur.
Þakka þessa fróðlegu pistla. Það hefur verið mikil lífsreynsla að vinna þessa sjálfboðavinnu. Og ekki bregðast Himalajafjöllin! Kær kveðja.
Pétur afi
Skrifa ummæli