Rishikesh, Rishikesh, Rishikesh! Ekki hægt að segja annað en að viss ævintýraljómi liggi yfir nafninu. Kannski er það bara af því að hingað komu bítlarnir til að læra jóga hjá Maharishi Mahesh Yogi árið 1968. Sumir telja einmitt að "The White Album" hafi fæðst hérna, eins og titill færslunnar gefur til kynna.
Bærinn kallar sig "Yoga Capital of the World" og hingað erum við komin til að stunda jóga hjá hinni þræljóguðu og viðkunnalegu konu, Louise Ellis. Síðan við komum höfum eiginlega lítið gert annað en að æfa jóga, borða góðan mat og vinna í heimaverkefnum fyrir námið í Goa.
Ferðin frá Kajuraho gekk vel, segi ekki vonum framar en vel. Þetta tók aðeins 25 tíma en mikil mildi var að u.þ.b. 11 af þeim voru í næturlest. Restin af klukkutímunum var aðallega í rickshaw-vögnum og rútuskrifli. Ætlunin var vitanlega að taka lestina alla leið en Diwali hefur líklega verið meginástæðan fyrir því að það plan gekk ekki.
Í dag er einmitt aðaldagurinn í Diwali. Diwali hefur svipað gildi fyrir hindúa og jólin hafa hjá Evrópubúum. Hér hefur allt verið skreytt með blikkandi ljósaseríum og flugeldum er skotið upp af miklum móð. Ein skreyting, sérstaklega, er frábrugðin því sem Íslendingar þekkja (músastigar og svoleiðis) en til að útbúa hana eru blómaknúpum safnað saman og svo hverjum og einum haganlega komið fyrir með límbandi á rúðum eða hurðum. Það er bara svolítil jólastemning í þessu ef maður leiðir hjá sér moskítókvikindin :)