sunnudagur, 15. apríl 2012

Lundkommardagen













Lundinn kemur til Lovund 14. apríl ár hvert milli klukka 17 og 19. Nei, ég er ekki að grínast. Hér hefur lengi verið haft sem viðurkvæði að lun'j kjæm á þessum degi.

Í gær rann semsé Lundakomudagurinn upp og fyrir okkur Baldur var hann ekki síst merkilegur fyrir þær sakir að fyrst þegar við fluttum hingað var þessum degi ætlað að marka endalok á dvöl okkar hér. Ef við entumst fram að komu lundanna værum við góð. Það var því sérstakt að upplifa daginn renna upp og vera ekki á leiðinni burt héðan eins og við sáum jafnvel fyrir okkur í fyrstu drögum.

Í tilefni dagsins var slegið upp í hópgöngu. Það er gaman frá því að geta að við höfum aldrei séð svona marga saman komna á eyjunni áður, en hér fylltist allt af heimamönnum af fastlandinu sem hingað voru komnir til að kíkja á lundann og fara á dansiball um kvöldið. Við slógumst með í hópinn og gengum að góðum útsýnisstað vestanvert á eyjunni. Þar tyllti fólk sér niður og hóf að rabba, margir höfðu verið forsjálir og komið með heitt kakó í brúsa og jafnvel eitthvað með því.

Á meðan hópurinn beið fuglanna var haldinn dálítill fyrirlestur fyrir okkur um lundann og komu hans til Lovund. Síðan hóf kór upp raust sína, börnin fór að skrækja enda gaman að vera í stórum hópi fólks og fólk hvíslaði sín á milli að það mætti nú ekki fæla fuglinn frá því að lenda á eyju.

Allt í einu fór mikið kurr um hópinn, þá hafði einhver séð til eins flokks í miklum fjarska. Við störðum öll eins og við gátum út um steinana okkar og eitt og eitt tókum við að greina daufa díla í fjarskanum. Fuglarnir lentu svo á haffletinum dágóða leið frá eynni og var það mál manna að þeir biðu annarra fugla sem heltst hefðu úr lestinni.

Við tók bið eftir fuglunum og margir fóru að velt fyrir sér hvort tímabært væri að halda heim, farið að kólna og svona, krakkarnir orðnir órólegir og farnir að suða um að fara heim og fá godteri. Einhverjir töluðu um að alls óvíst væri að fuglarnir kæmu endilega núna, eitthvað gætu þeir þurft að bíða eftir restinni af hópnum. Við náðum þó ekki að hugleiða þetta neitt nánar því út úr bláma himinsins birtist allt í einu þyrla og tók að hringsóla þarna yfir höfðum okkar. Okkur rak flest í rogastans, eins og gefur að skilja, og allt í einu var lundinn gleymdur í bili og allir komnir á létt skokk og sumir hlaup til að fylgja eftir þyrlunni og sjá hvar hún lenti.

Það snarkólnaði að standa í svona mikilli nálægð við þyrlu og náðu spaðarnir að þyrla upp mosa og öðrum gróðri með látunum í sér. Það kom þó ekki í veg fyrir að við stæðum öll hugfangin eins og börn í leikfangaverslun að skoða flottasta leikfangið og fylgdumst með þyrlunni lenda á mosagrónum kletti þarna á útsýnisstaðnum okkar. Orðið í móanum var að einhver hefði snúið sig illa eða jafnvel brotið fót og því væri sjúkraþyrla frá Sandnessjøen mætt á svæðið.

Varla vorum við búin að ná að meðtaka það að þyrla hefði hlunkað sér niður í selskapinn þegar litlir guttar komu hlaupandi að hópnum sem stóð næst þyrlunni, hrópandi og bendandi til himins: Lundinn er kominn, lun'j e kommen! Og þá var þyrlan gleymd á augabragði og aumingjans manneskjan sem slasaðist, og sneru sér allir sem einn og tóku nú að hlaupa til baka að klettasnösinni góðu. Mikið rétt, rétt fyrir framan okkur voru skýin og himinninn nú iðandi í lundafugli sem hnitaði hringi og flaug þó jafnframt áfram á einhvern merkilegan hátt.

Það var mikil upplifun að verða vitni að þessari stund, og frábært að gert sé svona vel úr þessum viðburði. Fuglinn hélt áfram að koma í smáum hópum sem hófu sig upp frá haffletinum en sá fyrsti til að mæta á svæðið var á slaginu sex. Lundinn í Noregi er eins nákvæmur og heimamenn þegar kemur að klukkunni og það er svolítið gaman að því.

Við stóðum auðvitað og gláptum upp í himinhvolfin á litlu svart og hvítlituðu fuglana í dágóða stund en svo tók maður eftir því að það var orðið ansi kalt, og þá héldum við aftur til baka og vorum frekar rösk, en fórum samt varlega yfir. Við vissum sem var að sjúkraþyrlan var upptekin og vildum alls ekki þurfa að hringja í hana.

2 ummæli:

Unknown sagði...

Fallegar myndir og skemmtileg saga.
Við göngum svo létt til lunda...

ásdís maría sagði...

Takk takk, gaman að heyra :)

Já, það er létt að ganga til lunda með létta lund.