Í dag er 17. maí og þá halda Norðmenn upp á
Norges nasjonaldag, en 1814 urðu menn víst sammála um
landets grunnlov og fagna þeim áfanga enn vel. Við ákváðum að taka þátt í hátíðarhöldunum og slógumst í för með skrúðgöngunni (
barnetog) sem lagði af stað klukkan 11 í morgun frá skólanum. Reyndar má segja að fagnaðarlætin hafi hafist í nótt þegar 10. bekkingarnir,
russ, hlupu um alla eyju undir morgun (klukkan fimm í nótt) með flautur og trommur, vekjandi foreldra og kennara. Og mig.
Konur, karlar og börn, allt niður í ungbörn, voru klædd í þjóðbúninga af ýmsum sortum og litum. Konur höfðu fléttað hárið og bundið saman með borða í norsku fánalitunum. Allir barnavagnar höfðu blaktandi fána og hlaupandi börn höfðu fána í hönd. Í broddi fylkingar voru fánaberar og lúðrasveitin og á eftir fyldi prúðbúin restin, veifandi og hlæjandi. Við gengum nokkra hringi um litla bæinn á eyjunni, hrópandi með mjög reglulegu millibili
Hipp hipp húrra! og
Húrra húrra húrra! Við elliheimilið höfðum við stutt stopp til að syngja þjóðsönginn og hlusta á hljómsveitina blása í stóru lúðrana.
Meðfram göngunni hlupu 10. bekkingarnir,
russ, blásandi í flautur og veifandi fána, og tilheyrir það
russefeiringen. Við leikskólann stóðu nokkur þeirra við grindverkið þar sem þau höfðu sett upp miða með þessum skilaboðum:
Her er det fullt, vi spanderer denne gangen. Svo stóðu þau og dreifðu smokkum til sparibúna fólksins í skrúðgöngunni. Þá höfðu þessi
russ farið um eyjuna í skjóli nætur og komið fyrir sams konar skilaboðum á húsum kennara og annarra saklausra eyjaskeggja. Hjá presthjónunum, sem flytja af eyjunni í ágúst, voru skilaboðin
Takk for alt, en ekki fengu allir svona sæta kveðju. Utan á húsi eins kennarans stóð:
It's not gay if it's a three way og utan á húsi eins af vaktstjórunum okkar í vinnunni var svo hljóðandi einkamálaauglýsing:
Singel og spenstig bestefar søker spretten bestemor.
Göngunni lauk við kirkjuna þar sem þeir sem vildu fóru inn til að hlýða á ræðuhöld en aðrir fóru heim í hádegismat. Áframhald verður síðan á hátíðarhöldum í skólanum seinna í dag þar sem fram fer kaffi- og kökusala og almennt mingl.
Hér eru nokkrar myndir úr þessari fjörugu og skemmtilegu skrúðgöngu.