miðvikudagur, 29. ágúst 2012

Álafoss

Í dag fór ég í dagsferð upp í Álafoss með mömmu.

Yfirlýst markmið: Ná í tvöfaldan plötulopa.

Óopinbert markmið: Ævintýrast í Mosó, taka myndir og borða eitthvað sætt.

Við völdum rigninga- og vindstilltan dag til verksins enda ætlunin að ferðast um á strætó. Ég tók vagninn niður á Klambratún og gekk þaðan yfir túnið á leið minni að Hlemmi. Á Hlemmi höfðum við mæðgur mælt okkur mót. Í tilefni þess hve veðrið var fínt hafði kona ein komið upp sölubás við eitt sólríkt hornið á Hlemmi og hafið sölu á grænkáli, rauðrófum, kryddjurtum og öðrum góðmeti. Þetta fannst mér frábært framtak, það þarf ekki meira til til að lífga upp á andrúmsloftið.

Leið 15 gengur beint upp í Mosfellsbæ og eftir dágóðan rúnt í þeim vagni fórum við út og gengum spottakorn til að koma okkur á áfangastaðinn sem var Álafoss. Þar er einmitt seldur lopi í ýmsu formi og mig vantaði nokkrar plötur af tvöföldum lopa til að geta hafist handa við að prjóna á sjálfa mig lopapeysu. En áður en við komumst svo langt hittum við reyndar stóð af hestum sem við heilsuðum upp á.

Eftir að hafa skoðað verslunina í bak og fyrir og látið vigta plötulopann og greitt fyrir samviskusamlega, ákváðum við að taka smá rölt um bæinn. Að einhverju leyti var bærinn enn í hátíðarskrúða frá nýafstaðinni bæjarhátíð Í túninu heima. Til marks um það voru trén skreytt bleikum slaufum og blöðrur voru bundnar við stólpa.

Mosfellsbær er ansi gróinn og fallegur eftir því. Við gengum í gegnum Álafosskvosina, meðfram læk sem þar rennur og háum öspum. Reynirinn skartar þessa dagana glæsilegum appelsínugulum reyniberjum sem ég hef aldrei neitt átt við en skilst að hægt sé að búa til úr þeim gott hlaup og saft. Þarna lét ég hins vegar nægja að dást að þeim og mynda.

Við enduðum gönguna inni í Mosfellsbakaríi sem er eitt það glæsilegasta bakarí sem ég hef komið í. Keyptum okkur smurð kryddbrauð til að seðja sárasta hungrið og splæstum svo í tertu ársins með heslihnetubotni og Freyjukaramellum. Fengum nett sykursjokk í kjölfarið en góð var sneiðin.

Í vagninum frá Mosó og niður á Hlemm rúntuðum við svo um allt Grafaholtið og Grafarvoginn, og vegna vegaframkvæmda keyrði bílstjórinn eins og djöfullinn væri á eftir okkur og fór sömu götur og hringtorg margoft. Undir miðbikið vorum við alveg orðnar ruglaðar og vissum ekki hvort við vorum að koma eða fara þegar vagninn tók að stíma í átt að Mosó aftur. Þetta var hins vegar ágæt skemmtun og góð útsýnisferð og þarna fékk ég rúntað um götur sem ég hef aldrei heimsótt fyrr.

Leiðir skildu á Hlemmi og ég tók vagninn heim í Garðabæinn. Á leiðinni hvíldi ég mig á hljóðbókinni og hlustaði í staðinn á nokkur vel valin lög frá sumrinu. Fékk kökk í hálsinn því tónlistin hafði umsvifalaust hrifið mig með sér inn í minningar frá Lovund og tíma okkar þar og allt í einu saknaði ég vina okkar og lífsins okkar þar alveg óskaplega. Ég veit ekki alveg hvað skal gera við svona tilfinningaflækjur en mér skilst að hægt sé að búa til úr þeim gott hlaup og saft.

Untitled
 
Untitled
 
Hneggjar
 
Untitled
 
Untitled
 
Untitled
 
Untitled
 
Untitled
 
Mæðgur
 
Untitled
 
Untitled
 
Untitled
 
Terta ársins hjá Mosfellsbakarí

Engin ummæli: