Við tókum fram fínu hjólfákana okkar og beittum fyrir hraðamæli, tróðum sunddóti í körfur og settumst svo á hnakk. Tókum stefnuna á Kópavog til að byrja með og hjóluðum í gegnum Akrahverfið í Garðabæ sem ég vissi ekki að væri til, hvað þá meira. Fórum niður í Kópavogsdalinn og hjóluðum meðfram Dalveginum yfir að Mjóddinni þar sem við beygðum upp í Bakkahverfin. Fórum upp góða en aflíðandi brekku og stungum okkur inn í Elliðaárdalinn fyrir ofan stífluna.
Þar áðum við á bekk enda mín ekki alveg komin á fullt hjólaskrið eftir pest síðustu viku. Sátum með bakið í Árbæjarsafn og horfðum yfir stífluna og dalinn sem breiðir úr sé með Breiðholtið sér á hægri síðu og Árbæinn á vinstri.
Héldum áfram og komum við í Bónus til að kaupa vatnsmelónu, ekki vill maður koma tómhentur í heimsókn. Knúsuðum vinkonu okkar í bak og fyrir, fengum okkur vatnsmelónu með mexíkóskri chiliblöndu (æði) og spjölluðum svo eins og við hefðum ekki hist í áraraðir, sem er einmitt raunin.
Áður en við kvöddumst hafði verið ákveðið að blása til sopa de Baldur, en svo er mál með vexti að síðla sumars 2010, þegar við vorum á leiðinni til Indlands í jógakennaranám og ferðalög, blés ástralska vinkona okkar Jen til kveðjuhófs, því hún var að flytja til baka til Ástralíu en ætlaði reyndar að hafa viðkomu í Indlandi og taka jógakennaranámið með okkur. Allir mættu með eitthvað til borðhaldsins og Baldur eldaði suður indverska kasjú-karrý-kókossúpu sem hitti svona líka í mark hjá mexíkósku vinum okkar. Viri sagði að þau hefðu nú látið sig dreyma um súpuna, sopa de Baldur, í tvö ár og draumar eru til þess að láta þá rætast svo nú er ekkert annað í boði en að bretta upp ermarnar og elda fyrir níu.
Frá Viri kíktum við svo í Árbæjarlaug þar sem einhver vanstilling á hitanum plagaði laugarvatnið. Vatnið á brautunum var heitt eins og í kröftugum potti, vatnið í heitasta pottinum var kaldara en í þægilega nuddpottinum og í gufunni varð manni kalt af því að sitja og bíða eftir að verða heitt í gegn. Vatnið í sturtunum rann hins vegar rétt svo okkur varð nú ekki meint af.
Hjóluðum heim Elliðaárdalinn sem er einn af mínum uppáhaldsstöðum í borginni. Þar hefur gróðurinn breytt um svip síðan fyrir mánuði þegar við komum til landsins. Fjólublátt hefur vikið fyrir rauðbleiku, og grænt er sumsstaðar að víkja fyrir appelsínugulu. Þetta er ófrávíkjanleg þróun árstíðanna, fyrirsjáanleg og svo óskaplega falleg.
Áðum síðan við Kópavogskirkju á Borgarholtinu áður en við tókum síðasta sprettinn heim í Garðabæinn. Frá Borgarholtinu sést til allra átta: Keilir, Fossvogurinn, Nauthólsvíkin, borgin, Esjan, Akrafjall og Skarðsheiðin, Snæfellsnesið og á góðum dögum sýnir jökullinn sig.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli